Framsýn stéttarfélag hefur tekið til umfjöllunar hugmyndir Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri um sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi í eitt 18 þúsund manna stéttarfélag. Hugmyndirnar eru settar fram í bréfi til aðildarfélaga Alþýðusambands Norðurlands þann 4. nóvember 2024. Framsýn hefur fjallað ítarlega um erindið á fundum í félaginu, nú síðast á stjórnar og trúnaðarráðsfundi 21. janúar 2025. Fulltrúum frá Framsýn-ung var einnig boðið að sitja fundinn og hafa áhrif á afstöðu félagsins til sameiningar stéttarfélaga á Norðurlandi.
Niðurstaða Framsýnar er að það sé ekki tímabært að sameinast öðrum stéttarfélögum en þeim sem þegar eru í góðu samstarfi við félagið í dag. Það eru stéttarfélögin Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar sem öll eiga aðild að sameiginlegri skrifstofu á Húsavík, auk þess að vera í góðu samstarfi um málefni er varða starfsemi stéttarfélaga s.s. hvað varðar orlofskosti fyrir félagsmenn. Framsýn er opið fyrir því að hefja viðræður um sameiningu þessara félaga enda sé gagnkvæmur áhugi fyrir slíkum viðræðum, það er stéttarfélaga sem starfa í Þingeyjarsýslum.
Framsýn er félagslega- og fjárhagslega mjög sterkt stéttarfélag sem hefur í gegnum tíðina haft burði til að veita félagsmönnum góða þjónustu og gott aðgengi að styrkjum s.s. náms- og styrkjum vegna veikinda og fyrirbyggjandi aðgerða í formi sjúkradagpeninga. Aðhald í rekstri hefur skilað þessum árangri. Þá hefur félagið látið sig byggða- og atvinnumál varða með það að markmiði að efla svæðið enn frekar félagsmönnum og öðrum íbúum til hagsbóta. Hvað það varðar, verið leiðandi í ákveðnum málum er snúa að atvinnu- og velferðarmálum.
Greinilegt er að félagsmenn kunna mjög vel að meta starfsemi félagsins sem skoðanakannanir sem og ásókn í félagið staðfesta. Fyrir liggur að félagsmönnum Framsýnar hugnast ekki að tapa sjálfstæði félagsins og því sem það stendur fyrir í dag. Hafa þeir komið þessum skilaboðum skýrt á framfæri við forsvarsmenn félagsins, ekki síst eftir fréttaumfjöllun um málið á dögunum. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar vill feta þessa leið áfram félagsmönnum og samfélaginu öllu til góða, það er að fylgja eftir skoðunum félagsmanna á hverjum tíma.
Setið yfir hugmyndum um sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi. Fundarmenn þungir á svip en myndin er tekin þegar málið var til umræðu innan Framsýnar í vikunni.
Félagsmönnum Framsýnar gafst kostur á að hafa skoðanir á hugsanlegri sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi, ekki stóð á svörum frá almennum félagsmönnum, hér eru nokkur dæmi um viðbrögðin en þau voru fjölmörg:
Nei takk, Finnst engin ástæða til að breyta því sem gengur vel, Nei takk, Alls ekki hætta með það sem virkar vel hér heima annars endar þetta á AK, Sé engan ávinning í því, Nei takk, Það má aldrei verða!, Nei, Já Akureyri gleypur, Nei nei alls ekki að sameinast neitt!, Engin ástæða að breyta því sem gengur vel!, Nei bara alls ekki neina sameiningu, Glórulaust verður þá ekki miklu meira mál að fá íbúðir þegar allur þessi fjöldi er kominn í einn pakka?, Ææ helst ekki, Nei takk, Alls ekki takk, Nei takk, Finnst engin ástæða til að breyta því sem gengur vel.
Öll svörin sem bárust voru neikvæð sem þarf ekki að koma á óvart enda mikil ánægja með starfsemi félagsins.
Á fundum Framsýnar er ávallt notast við nýjustu tækni til að auðvelda félagsmönnum utan Húsavíkur að taka þátt í umræðu um starfsemi félagsins s.s. hugsanlega sameiningu við önnur stéttarfélög. Félagssvæði Framsýnar nær yfir um 18% af landinu.