Ekki er óalgengt að félagsmenn stéttarfélaga, ekki síst lágtekjufólks, komi óánægju sinni á framfæri við félögin hvað varðar réttindi þeirra á lífeyri við lífeyristöku á eldri árum. Eitt af megin verkefnum stéttarfélaganna hefur verið að efla réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum svo þeir geti átt áhyggjulaust ævikvöld. Vissulega koma því hugmyndir ákveðinna frambjóðenda um að skattleggja iðgjaldið við inngreiðslu í stað þess að greiða skatt af lífeyri þegar hann kemur til útgreiðslu verulega á óvart. Á sínum tíma var þetta mikið baráttumál verkafólks, það er að iðgjaldið væri ekki skattlagt við inngreiðslu. Full ástæða er til að vara kjósendur við svona málflutningi, það er að skattleggja fólk með þessum hætti.
Í ágætri grein á Vísi sem Finnbjörn A. Hermannsson forseti Alþýðusambands Íslands og Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins skrifa eru þessar glórulausu hugmyndir ákveðinna frambjóðenda til Alþingis skotnar niður en greinin byrjar á þessum orðum:
„Undanfarið hafa ýmsar hugmyndir verið reifaðar um hvernig bæta megi afkomu ríkissjóðs og fjármagna brýn verkefni. Ein þeirra lýtur að því skattleggja iðgjald til lífeyrissjóðanna við inngreiðslu í stað þess að greiða skatt af lífeyri þegar hann kemur til útgreiðslu. Hafa þessar hugmyndir verið kynntar sem einhvers konar töfralausn, fundið fé sem hvorki muni hafa áhrif á afkomu lífeyrisþega né afkomu ríkissjóðs til framtíðar. Það er alrangt. Slíkar hugmyndir væru ekkert minna en afturför lífeyrismála á Íslandi og upptaka á vandamálum sem margar aðrar þjóðir standa frammi fyrir með verulega neikvæðum áhrifum á kjör eldra fólks og útgjöld hins opinbera.“
https://www.visir.is/g/20242649656d/kynslodasattmalann-ma-ekki-rjufa