38. þing Alþýðusambands Norðurlands fór fram í gær og í dag á Illugastöðum í Fnjóskadal. Mörg fróðleg erindi voru flutt á þinginu auk þess sem ályktað var um heilbrigðismál. Þá var samþykkt að færa Kvennaathvarfiu á Akureyri kr. 500.000,- frá sambandinu um leið og þingið beinir þeim tilmælum til annarra félagasamtaka, sveitarfélaga og einstaklinga að styðja við bakið á þessari mikilvægu starfsemi. Þá var ný stjórn kjörin. Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags hlut rússnenska kosningu þar sem hún var kjörin formaður sambandsins til næstu tveggja ára.
Ályktun um heilbrigðismál
„38. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að stjórnvöld tryggi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, óháð búsetu, aldri eða efnahag. Hver vill ekki hafa aðgengi að lækni og öðru heilbrigðisstarfsfólki í sinni heimabyggð? Öflug heilbrigðisþjónusta eru sjálfsögð mannréttindi.
Stjórnvöld hafa lengi talað fyrir hagræðingu í heilbrigðiskerfinu en þar hafa hljóð og mynd ekki farið saman. Hagræðingartillögur stjórnvalda hafa miðast við að draga úr útgjöldum ríkissjóðs við almenna heilbrigðisþjónustu á kostnað almennings í landinu.
Áhrifin sjást einna best á landsbyggðinni þar sem dregið hefur verið markvisst úr sérfræðiþjónustu og skurðstofum sem og fæðingardeildum lokað og læknaskortur er viðvarandi á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Afleiðingarnar eru að sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa að ferðast langar vegalengdir, oft við erfiðar aðstæður, með óheyrilegum kostnaði og óþægindum. Þetta á ekki síst við um barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra sem í mörgum tilfellum þurfa að flytjast búferlum milli landshluta þar sem sérhæfð fæðingaraðstoð er ekki til staðar nema á fáeinum stöðum á landinu. Slík staða er einfaldlega ekki boðleg.
Hagræðing og aukin samþjöppun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni má ekki felast í því að kostnaður sé færður yfir á sjúklinga, aðstandendur og stéttarfélög meðan ríkið losar sig undan ábyrgð. Að mati AN kemur ekkert annað til greina en að bæta úr þessari stöðu, enda markmið laga um heilbrigðisþjónustu að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu þjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði.
Á sama tíma og heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað stendur þjóðin frammi fyrir stórum áskorunum í heilbrigðismálum. Lífaldur lengist, lýðheilsuvandamál breytast, vaxandi þörf er á öflugri geðheilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu og forvörnum. Þá kallar breytt samsetning íbúa með fjölgun innflytjenda og vaxandi ferðamannastraumur á nýja nálgun í þjónustu. Forgangsraða þarf opinberu fé til að tryggja að heilbrigðiskerfið standi undir þessum áskorunum.
38. þing Alþýðusamband Norðurlands krefst þess að stjórnvöld fylgi eftir markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu og bæti þegar í stað aðgengi allra þegna landsins að viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggi þannig jafnan aðgang að heilsugæslu, sérfræðingum, hjúkrunarheimilum og nauðsynlegum lyfjum í heimabyggð. Til dæmis með því að auka verulega rekstrarfé til Sjúkrahússins á Akureyri og annarra heilbrigðis- og hjúkrunarheimila á Norðulandi. Auk þess verði greiðsluþáttökukerfið endurskoðað, þar með talið kostnaður sjúklinga og aðstandenda, vegna vinnutaps, ferðalaga og dvalar í takt við útgjöld þeirra á hverjum tíma.
Alþýðusamband Norðurlands er reiðubúið til að koma að þessari vinnu með stjórnvöldum, enda um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir félagsfólk, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins.“