Framsýn stéttarfélag færði Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum kr. 15.000.000,- að gjöf til kaupa á tækjum og búnaði fyrir stofnunina og Hvamm heimili aldraðra. Þar munar mestu um kaup á hjartaómtæki sem gerir HSN kleift að hafa hjartalækni í hlutastarfi hjá stofnuninni. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður félagsins fylgdi gjöfinni eftir en hún var afhent við hátíðlega athöfn í gær. Búnaðurinn samanstendur af fullkomnu hjartaómtæki, göngubretti, sturtustól-setdýnu, stólavog, eyrnaskoðunartæki,meðgöngumonitor, rannsóknartæki D-dimer og vökvadælu.
Daníel Borgþórsson formaður Styrktarfélags HSN og Bergur Elías Ágústsson stjórnarformaður Dvalarheimilisins Hvamms þökkuðu Framsýn fyrir höfðingja gjöf. Undir það tóku læknar og annað hjúkrunarfólk sem gerðu gestunum grein fyrir notagildi tækjana. Þar fór fremstur, Ásgeir Böðvarsson yfirlæknir á sjúkrahúsinu. Í máli þeirra kom fram mikil ánægja með velvild Framsýnar í garð Hvamms og HSN. Meðfylgjandi er ávarp formanns sem hann flutti við afhendinguna.
Ágætu gestir, verið velkomin
Við erum stödd á aðalfundi Verkakvennafélagsins Vonar, nú Framsýnar stéttarfélags, þann 20. febrúar 1959. Fyrir fundinum liggur tillaga frá félagskonum sem hlaut brautargengi:
„Fundurinn samþykkir að Verkakvennafélagið Von taki þátt í fjárframlögum til kaupa á sótthreinsunartæki fyrir Sjúkrahús Húsavíkur og leggi fram kr. 3.500“.
Á félagsfundi í Von tæpu ári síðar, eða 20. janúar 1960, kemur fram að tekist hafi að gera við gömlu sótthreinsitækin á Sjúkrahúsinu og því ekki þörf á fjárframlagi frá félaginu til kaupa á nýju tæki.
Þess í stað væri unnið að því að kaupa tæki til að taka hjartalínurit og mörg félög í bænum hefðu lagt fram fé til þeirra kaupa. Lagði þáverandi formaður Vonar, Þorgerður Þórðardóttir til, að áðurnefnt fé, að viðbættum 1.500 krónum gengi til kaupa á hjartalínutæki, svo félagið gæfi Sjúkrahúsinu í heildina kr. 5.000 til þessara kaupa. Tillagan var samþykkt.
Af hverju nefni ég þetta hér?
Jú, stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum hefur frá fyrstu tíð verið umhugað um sitt nærsamfélag.
Liður í því hefur verið að koma að góðum málefnum sem miða að því að styrkja samfélagið og bæta búsetuskilyrði á félagssvæðinu, sem nær frá Raufarhöfn í austri að Vaðlaheiðargöngum í vestri. Í dag eru rúmlega þrjú þúsund félagsmenn í Framsýn stéttarfélagi.
Allt frá fyrstu tíð höfðu bæði Verkamannafélag Húsavíkur og Verkakvennafélagið Von á stefnuskrám sínum að sinna kaup- og réttindamálum félagsmanna. En þeim var jafnljóst að hagsbótina mátti einnig sækja í aðra staði, s.s. með samtryggingarsjóðum, öflugri heilbrigðisþjónustu, hagkvæmri verslun, samhjálpar- og menningarstarfi og afskiptum af málefnum bæjarfélagsins varðandi ekki síst gjaldskrár. Á slíkt lögðu félögin engu síðri áherslu en sjálfa kaupgjaldsbaráttuna.
Við sem höldum um keflið í dag, höfum gert okkar besta, til að fylgja þessum göfugu markmiðum eftir. Þeirra sem mörkuðu sporin á sínum tíma í þágu íbúa í Þingeyjarsýslum.
Það má vel vera að við séum öðruvísi en önnur stéttarfélög sem er hið besta mál, enda fjölbreytileikinn af hinu góða.
Samhliða því að gera betur við okkar félagsmenn en almennt þekkist meðal sambærilega stéttarfélaga innan ASÍ, hvað þjónustu og styrki varðar, er okkur ekki síst mjög umhugað um okkar samfélag.
Það staðfestir gjöfin sem við ætlum að afhenda hér í dag til Styrktarfélags HSN í Þingeyjarsýslum sem er sú lang veglegasta sem við höfum gefið fram að þessu. Þá má nefna málinu til stuðnings, hvað varðar starfsemi félagsins, að í vikunni munu forsvarsmenn Framsýnar eiga fund með innviðaráðherra varðandi stuðning stjórnvalda við áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Sá róður er vissulega þungur en við munum halda áfram að berjast fyrir betri samgöngum við Reykjavík á landi og í lofti.
Þá er á borðinu hjá okkur að Íbúðafélagið Bjarg, sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar, byggi sex íbúða raðhús á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Um er að ræða óhagnaðardrifnar leiguíbúðir fyrir tekjulága. Það mun ekki gerast nema Framsýn fylgi málinu eftir að fullu með stuðningi sveitarstjórnar Norðurþings sem liggur þegar fyrir enda sameiginlegt baráttumál.
Við megum aldrei missa sjónar að því að gera allt sem við getum til að efla okkar samfélag á öllum sviðum og benda á það sem betur má fara. Við sem þekkjum heilbrigðiskerfið, reyndar höfum við öll þurft á því að halda, vitum að það skiptir gríðarlega miklu máli takist okkur að bætta grunnþjónustuna í heimabyggð. Það eykur okkar öryggi, sparar peninga, dregur úr vinnutapi svo ekki sé talað um ferðakostnað sem er orðin óheyrilegur fyrir okkur á landsbyggðinni.
Á dögunum þurfti ég að fara suður til sérfræðings. Eftir stuttan akstur frá Húsavík var ég myndaður í Vaðlaheiðargöngum enda gert að greiða í göngin, stuttu síðar mæti mér önnur myndavél á Akureyrarflugvelli sem myndaði mig enda gert að greiða fyrir að geyma bílinn á flugvellinum meðan ég sinnti erindum í Reykjavík. Eftir 100.000,- króna flug til Reykjavíkur (reyndar fram og til baka) beið myndavél á Reykjavíkurflugvelli eftir því að ég yfirgæfi bílastæðið við völlinn á bíl sem ég hafði fengið lánaðan yfir daginn. Að sjálfsögðu slapp ég ekki við að greiða fyrir bílastæðið. Mér hefur reyndar aldrei leiðst að láta taka myndir af mér en þetta er nú „too much” fyrir mig, það er að vera myndaður átta sinnum sama daginn, bara fyrir það eitt að ferðast milli landshluta eftir þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.
Þegar komið var að heilbrigðisstofnuinni sem ég var að heimsækja í Reykjavík var mér boðið upp á að sækja app í símann svo ég gæti nú greitt fyrir bílastæðið meðan ég sótti þjónustuna, ég held að ég hafi sloppið við myndatöku en er samt ekki alveg viss. Töluverðar upphæðir fóru út af kortinu hjá mér þennan daginn, það er við að sækja sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur.
Til viðbótar öllum þessum álögum/sköttum sem eru að stórum hluta bundnar þeim sem búa á landsbyggðinni og þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu til Reykjavíkur er ætlun stjórnvalda að bæta heldur á álögur hjá okkur, með því að taka upp aukna skatta um næstu ármót, en þá verður sérstakt kílómetragjald lagt á bifreiðar.
Er þetta nú ekki að verða svolítið galin skattheimta?
Ég efast ekki um að framlag Framsýnar til kaupa á tækjum og búnaði fyrir HSN/Hvamm fyrir 15. milljónir á eftir að draga úr þessum óheyrilega kostnaði heimamanna og bæta um leið búsetu- og lífsskilyrði fólks í Þingeyjarsýslum. Við höfum lagt á það sérstaka áherslu að búnaðinum verði komið fyrir á starfsstöðum HSN á Húsavík, Raufarhöfn, Kópaskeri, Mývatnssveit og Reykjadal sem er okkar félagssvæði.
Okkar frábæra starfsfólk á HSN/Hvammi munu gera frekari grein fyrir þeim tækjum og búnaði sem ákveðið hefur verið að kaupa fyrir gjafaféð. Þar munar mestu um kaup á hjartaómtæki sem gerir HSN kleift að hafa hjartalækni í hlutastarfi hjá stofnuninni. Þá fengum við á dögunum fallega kveðju frá sjúkraþjálfurum á Hvammi sem sögðust afar ánægðir með nýja hlaupabrettið sem kæmi að góðum notum við endurhæfingu sjúklinga. Nánar um þetta hér á eftir en til viðbótar má geta þess að Framsýn mun niðurgreiða kostnað félagsmanna sem fara í skoðun í nýja hjartaómtækið.
Á aðalfundi Framsýnar þann 3. maí 2024 var eftirfarandi bókun gerð:
“Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags samþykkir að færa Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum að gjöf kr. 15.000.000,- til kaupa á tækjum og búnaði til að efla starfsemina enn frekar. HSN og Hvammur hafa á að skipa frábæru fagfólki í öllum stöðum. Svo starfsemin megi þrífast áfram um ókomna tíð er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgengi að fullkomnustu tækjum á hverjum tíma til lækninga og þjálfunar. Með gjöfinni vill Framsýn stéttarfélag undirstrika mikilvægi þess, að íbúar í Þingeyjarsýslum og aðrir þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu að halda á hverjum tíma, hafi aðgengi að öflugum heilbrigðisstofnunum. Þannig byggjum við upp sterkt samfélag öllum til hagsbóta.”
Ég vil biðja Daníel Borgþórsson, formann Styrktarfélags HSN í Þingeyjarsýslum og Berg Elías Ágústsson stjórnarformann Hvamms að koma hér upp og veita gjöfinni viðtöku um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með tækin og búnaðinn, sem verður til staðar fyrir okkur til þæginda og öryggis um leið og starfsumhverfi okkar fagfólks verður miklu betra. Takk fyrir.