Að gefnu tilefni vill Framsýn stéttarfélag minna sveitarstjórnarfólk á félagssvæðinu á yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga sem undirritaðir voru í mars sl.
Í yfirlýsingu er skýrt kveðið á um að sveitarfélögin lýsa yfir fullum vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og þær verði endurskoðar hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.
Skýrara verður það ekki og Framsýn trúir því ekki að sveitafélögin, sem aðild eiga að kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands ísl. sveitarfélaga, vogi sér að svíkja launafólk með því að standa ekki við gefin loforð.
Þá er rétt að geta þess að kjarasamningurinn gekk út á að semja til langstíma með hófstilltum hætti til ná niður verðbólgunni og skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun. Þessi leið sparar sveitarfélögum landsins marga milljarða í launakostnað og því lágmark að sveitarfélögin standi við sín loforð um aðhald í gjaldskrárhækkunum.