Andrea Fáfnis Ólafs og Viðar Breiðfjörð með samsýningu  á Mærudögum

Andrea Fáfnis Ólafs og Viðar Breiðfjörð halda samsýningu í Hlyn við Garðarsbraut yfir Mærudagana. Listamennirnir eiga bæði ættir og barnæsku að rekja til Húsavíkur. Þau héldu samsýningu í Vestmannaeyjum á Sjómannadaginn og þá var ákveðið að sýna líka á Húsavík á Mærudögum. 

Listsköpunin kom í kjölfarið á miklu ölduróti lífsins og því kalla þau samsýninguna ÖLDURÓT. Þau eru sammála um að listsköpunin veki með þeim mikla hamingju og sálarró sem þau miðla áfram á strigann og vonast til að skili sér áfram til þeirra sem á horfa. Viðar sækir innblástur í náttúruna og mannfólkið á meðan Andrea sækir innblástur frá ýmsum viðfangsefnum, eigin hugarheimi og umhverfi. Hugarheimurinn og tengingin við sköpunarbylgjulengdina er gríðarstór gnægtarbrunnur fyrir hið listræna sköpunarflæði. Andrea er einstaklega heilluð af ýmsum listamönnum frá Bauhaus tímabilinu á fyrri part síðustu aldar. Frumkvæðið og krafturinn sem einkenndi Bauhaus hreyfinguna breytti því hvernig fólk leit á listsköpun. Á þeim tíma urðu til frumkvöðlar í bæði geometríunni og abstraktlistinni.

Bæði náttúran og geómetrían bera með sér ákveðið tímaleysi og mætti því segja að listaverk þeirra Andreu og Viðars séu sígild og tímalaus. Andrea tekur fram að hún hefur líka virkilega gaman að því að mála einhvers konar kosmísk ferðalög, eins konar leik að hreyfingu, litum og bylgjum sem leika við augu áhorfandans þannig að ímyndunaraflið fari á flug og veki spurningar. Einnig laumar hún stundum tilvísunum frá fornum menningarheimum í verkin. 

Sýningin opnar á laugardaginn 27. júlí kl. 14:00 og bjóða þau Húsvíkinga og aðra gesti Mærudaga velkomna.

Deila á