Vegna áskorunar Sambands íslenskra sveitarfélaga um að gjaldskrár er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu hækki ekki umfram 3,5% á þessu ári voru gjaldskrárlækkanir samþykktar á fundi sveitarstjórnar þann 21. mars. Gjaldskrár sveitarfélagsins hækkuðu um 7.5% um áramót en sveitarstjórn gaf það út í janúar að hún væri reiðubúin að endurskoða og lækka gjaldskrár og styðja þannig við þjóðarsátt, sjá hér.
Bókun sveitarstjórnar frá 21. mars:
„Sveitarstjórn fagnar nýgerðum kjarasamningum og samþykkir tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga um lækkun gjaldskráa sem varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Eftirtaldar gjaldskrár verða lækkaðar: Gjaldskrá leikskóla Þingeyjarsveitar, tónlistarskóla, heimaþjónustu og hádegisverður eldri borgara.
Rétt er að geta þess að í Þingeyjarsveit eru skólamáltíðir í leik- og grunnskóla gjaldfrjálsar og verða það áfram. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að uppfæra áðurnefndar gjaldskrár í samræmi við tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga og taka nýjar gjaldskrár gildi þann 1. apríl nk.“
Þessir flokkar hafa nú verið lækkaðir svo hækkunin nemur 3.5% frá fyrra ári, ekki 7.5%.
Framsýn fagnar þessu framtaki Þingeyjarsveitar sem er í anda félagsins sem áður hafði farið þess á leit við Þingeyjarsveit og önnur sveitarfélög í Þingeyjarsveitum að endurskoða gjaldskrárhækkanirnar.