Í dag, 5. apríl 2024 eru 60 ár liðin frá stofnun Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags. Verkalýðsfélagið varð til þegar Verkamannafélag Húsavíkur og Verkakvennafélagið Von sameinuðust vorið 1964. Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Júlíusson. Félagssvæði þess í dag er Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur.
Framsýn er aðili að Starfsgreinsambandi Íslands, Landssambandi ísl. Verslunarmanna, Sjómannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Norðurlands og Alþýðusambandi Íslands. Þá starfar félagið í nánu samstarfi við önnur stéttarfélög í Þingeyjarsýslum sem reka m.a. öfluga þjónustu á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.
Við stofnun félagsins voru tæplega þrjú hundruð félagsmenn í félaginu en nú eru þeir á fjórða þúsund. Núverandi formaður félagsins er Aðalsteinn Á. Baldursson.
Félagið mun að venju standa fyrir veglegum hátíðarhöldum 1. maí á Fosshótel Húsavík þar sem boðið verður upp á veglegt afmælisboð í samstarfi við önnur stéttarfélög á svæðinu, þar sem þessum tímamótum verður jafnframt gerð góð skil. Þá verður aðalfundur félagsins með glæsilegasta móti en hann verður væntanlega haldinn föstudaginn 3. maí. Sá fundur verður auglýstur nánar síðar.