Formaður kallaður fyrir Byggðaráð Norðurþings

Byggðaráð Norðurþings óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar í morgun til að ræða stöðuna og framtíðina er viðkemur áætlunarflugi til Húsavíkur. Eins og fram hefur komið hefur Vegagerðin boðað að ríkistuðningi við flug til Húsavíkur verði hætt um næstu mánaðamót. Fyrir liggur að það þarf kraftaverk til að svo verði ekki.

Fulltrúar Framsýnar og Norðurþings hafa fundað undanfarið með stjórnendum Flugfélagsins Ernis sem haldið hefur uppi flugi til Húsavíkur með miklum ágætum frá árinu 2012, ekki síst í samstarfi við aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Vissulega kom það heimamönnum töluvert á óvart að staða flugfélagsins væri með þeim hætti sem mbl.is greindi frá í gærkvöldi. Þar er haft eftir Einari Bjarka Leifssyni fjármálastjóra Ernis að flugfélagið glím­i við rekstarörðugleika og ætlunin sé að skila inn flugrekst­ar­leyfi flugfélagsins. Þá kemur einnig fram að flugfélagið sé meðal ann­ars með háar líf­eyr­is­sjóðs- og skatt­skuld­bind­ing­ar sem ekki hafi verið staðið skil á um nokk­urt skeið. Rekstur­inn sé þungur og fyrirtækið þurfi því að grípa til þessara aðgerða.

Á fundi byggðaráðs með formanni Framsýnar í morgun urðu miklar umræður um stöðuna og næstu skref. Nokkrum kostum var varpað upp sem verða teknir til frekari skoðunar. Kanna þarf t.d. betur aðkomu Vegagerðarinnar að áframhaldandi áætlunarflugi til Húsavíkur en Vegagerðin hefur talað fyrir þriggja mánaða útboði um jól og áramót sem er reyndar ekki boðlegt þar sem tímabilið þarf að vera töluvert lengra svo það verði áhugavert fyrir flugrekstraraðila að bjóða í áætlunina. Þá er ekki síður mikilvægt að tryggja að flugvellinum verði viðhaldið og hann verði áfram opinn fyrir sjúkraflug.

Síðast en ekki síst þarf að tryggja fjármagn svo hægt verði að ráðast í endurbætur á flugvellinum og mannvirkjum á vallarsvæðinu. Eitt er víst að málinu er ekki lokið, áfram skal barist fyrir áætlunar- og sjúkraflugi til Húsavíkur.  

Deila á