Forsvarsmenn Framsýnar og Samkaupa hittust á fundi síðasta mánudag til að ræða verslunarrekstur fyrirtækisins á Húsavík, umræður urðu reyndar líka um verslun Samkaupa í Mývatnssveit. Fram kom að ekki stendur til að breyta þeirri verslun frá því sem nú er undir merkjum Krambúðar.
Varðandi verslunina Nettó á Húsavík þá gerðu forsvarsmenn Framsýnar grein fyrir umræðu í samfélaginu um óánægju heimamanna með stöðu mála. Töldu þeir mikilvægt að núverandi verslun yrði gerð aðgengilegri með breytingum á uppsetningu verslunarinnar og vöruúrvalið tæki mið af þörfum viðskiptavina á hverjum tíma. Heimafólk kvartaði oft yfir því að það væri skortur á dagvörum í versluninni sem gerði það að verkum að fólk færi í auknum mæli til Akureyrar í verslunarferðir. Þá væru verslunarkeðjur á Akureyri auk þess farnar að bjóða upp á heimsendingaþjónustu til Húsavíkur þar sem þær fyndu fyrir óánægju viðskiptavina Nettó á Húsavík með verslunina.
Samkaup hefur gefið það út að til standi að byggja upp öflugan verslunarkjarna á svæðinu. Framsýn legði mikið upp úr því að áherslur félagsins næðu fram að ganga, öflugur matvörumarkaður væri forsendan fyrir því að önnur verslun þrifist á Húsavík. Að þessum markmiðum væri félagið tilbúið að vinna með Samkaupum og öðrum verslunareigendum á Húsavík og í næsta nágrenni. Þá væri afar mikilvægt að Samkaup skipti við framleiðendur í Þingeyjarsýslum og kæmi jafnframt að því að styrkja samfélagið almennt með framlögum s.s. til æskulýðs, íþrótta og menningarmála.
Forsvarsmenn Samkaupa tóku ábendingum Framsýnar mjög vel. „Verslunarfermetrar að Garðarsbraut 64 eru of fáir og er það stóra áskorun okkar í dag“ segir Gunnar Egill Forstjóri Samkaupa. Á síðustu árum hafa margir kostir verið skoðaðir á svæðinu með tilliti til fjölgun verslunarfermetra. Má þar nefna að flytja núverandi verslanir á einn stað annarsstaðar í bænum eða byggja við annað hvort Garðarsbraut 5 eða 64. Hafa þessar umleitanir síðustu ára ekki leitt til árangurs og þeim því hætt. Því hafði forstjóri Samkaupa samband við sveitastjóra Norðurþings síðasta haust og óskaði eftir samtali um lóðir sem vænlegt væri að byggja á til framtíðar. Leiddi þetta samtal til þess að nú stendur yfir skipulagsvinna varðandi lóð í landi Húsavíkur við Norðausturveg og stefnt þar að uppbyggingu verslunarkjarna með 1.300 fermetra Nettó verslunar auk annarrar þjónustu.
„Núverandi verslunarrými að Garðarsbraut 64 hefur verið stækkað tvívegis síðustu ár en góð verslun heimamanna og gesta hefur enn á ný gert verslunarrýmið of lítið. Stjórnendur og starfsfólk okkar hefur staðið sig frábærlega á svæðinu við þjónustu við viðskiptavini að mínu mati. En í ljósi stöðunnar munu þau ráðast í í endurskoðun á vöruvali verslunarinnar, breyta uppröðun eins og kostur er og rýmka núverandi rými eins og kostur er þangað til ný verslun getur risið. Samkaup hefur stutt við bakið á mörgum samfélagslegum verkefnum á svæðinu síðustu ár og verslað við heimaaðila eins og kostur er og mun gera það áfram“ segir Gunnar að lokum.
Forsvarsmenn Samkaupa og Framsýnar sammæltust um að vera í góðu sambandi hvað það varðar að efla verslunarrekstur á Húsavík. Framsýn mun fylgja málinu eftir af fullum þunga íbúum til hagsbóta.