Félagsgjöld í Framsýn eru ákveðin á aðalfundi félagsins á hverjum tíma. Þau hafa verið óbreytt til fjölda ára eða 1% af launum starfsmanna. Til að teljast fullgildur félagsmaður þurfa menn að vera á vinnumarkaði og hafa náð að greiða lágmarksfélagsgjald kr. 14.649,- á árinu 2023. Félagsmenn sem eru á vinnumarkaði og ná ekki að greiða lágmarksgjaldið s.s. vegna þess að þeir eru í hlutastarfi eða störfuðu á vinnumarkaði, aðeins hluta af árinu, stendur til boða að greiða mismuninn á greiddu félagsgjaldi á árinu og lágmarksgjaldinu enda ætli þeir sér að vera áfram á vinnumarkaði. Geri menn það hafa menn fullt kjörgengi í félaginu og teljast fullgildir félagsmenn. Eða eins og stendur í lögum félagsins;
„Þeir félagsmenn, sem ekki hafa náð að greiða það lágmarksgjald, sem aðalfundur hefur ákveðið skulu færðir á aukafélagaskrá. Greiði þeir skuld sína vegna næstliðins starfsárs fyrir 31. mars, skulu þeir á ný færðir á skrá yfir fullgilda félagsmenn.“
Rétt er að taka skýrt fram að greiðslur til félagsmanna úr sjóðum félagsins s.s. sjúkra- orlofs eða starfsmenntasjóðum taka ávallt mið af greiðslum atvinnurekenda í þessa sjóði af viðkomandi félagsmönnum ekki lágmarksgjaldinu enda kjarasamningsbundið að atvinnurekendur greiði í þessa sjóði, ekki almennir félagsmenn. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna eða með því að senda fyrirspurn á netfangið kuti@framsyn.is.