Snjókorn falla til jarðar á aðventunni og stjörnur á himni móta fallega umgjörð um jólahátíðina á Húsavík. Það er ekki laust við að það sé spenningur í loftinu hjá ungviðinu á Torginu enda draumur um hvít jól svo jólasveinarnir komist klakklaust til byggða með jólagjafirnar á sleðunum sínum.
Í þá daga var öllum gert að hjálpast að, ekki síst á stóru heimili þar sem fjölskylda mín bjó frekar þröngt miðað við þægindin í dag, enda margir í heimili. Ég og bróðir minn, tveimur árum eldri, höfðum ákveðið hlutverk í aðdraganda jólanna. Það var að sendast til Alla Geira sem hafði umboð fyrir Ölgerðina sunnar í bænum til að kaupa tvo kassa af malti og appelsíni í gleri, sem við drógum síðan heim í Iðavelli á snjóþotum, enda ekki til bíll á heimilinu.
Á heimleiðinni var komið við í versluninni Búrfelli til að eiga viðskipti við kaupmanninn á horninu. Við höfðum nefnilega fengið hvor um sig 10 kr. fyrir að sækja drykkina góðu til Alla Geira. Það var alltaf gott að koma við í Búrfelli hjá Óla og Ingu enda yndisleg hjón í alla staði, en þau ráku búðina. Þrátt fyrir að við kæmum reglulega til þeirra til að versla, þekkti Óli okkur sjaldan enda fór það orð af honum að hann væri ekki sérstaklega mannglöggur. Það kom fyrir að hann spurði hvort við værum nýfluttir í bæinn, en svo var að sjálfsögðu ekki, enda alltaf búið á Húsavík. Oftast versluðum við bræður möndlur fyrir peninginn sem við fengum fyrir að sendast fyrir mömmu í búðina. Í Búrfelli heyrði ég í fyrsta skipti talað um sparnað, frá afgreiðslumanni við búðarborðið. Reyndar gerðum við allt til að forðast þennan ákveðna afgreiðslumann, sem við misskildum á þeim tíma, auðvitað vildi hann okkur vel. Það var nefnilega þannig að þegar við komum að afgreiðsluborðinu til að greiða fyrir möndlurnar, þá setti hann upp svip og sagði okkur að spara krónurnar og setja þær í sparibaukana okkar. Þá yrðum við ríkir í stað þess að eyða krónunum í tóma vitleysu. Við bara skildum þetta ekki, möndlurnar væru örugglega miklu betri fjárfesting og þarfari en einhver sparnaður sem væri algjörlega óþarfur fyrir unga menn. Auk þess höfðum við bræður ekki hugmynd um hvað væri að vera ríkur. Við komum frá alþýðuheimili þar sem kærleikurinn réð ríkjum og því lítið talað um peninga hvað þá hlutafjárkaup við eldhúsborðið.
Blundað í kirkjunni
Hjá okkur bræðrum var aðfangadagurinn lengsti dagur ársins, enda biðu fallega skreytir jólapakkar við jólatréð í stofunni eftir því að komast í hendurnar á ungum drengjum og öðru heimilisfólki síðla dags. Við vöknuðum fyrir allar aldir og biðin eftir því að fá að taka upp pakkana var oft óbærileg. Hefð var fyrir því á heimilinu að sækja kirkju á aðfangadag. Meðan mamma undirbjó hátíðarkvöldverð fór pabbi með okkur börnin í kirkju svo hún fengi frið fyrir okkur. Við bræður settum eitt skilyrði fyrir kirkjusókninni, það var að við fengjum að sitja á fremsta bekk á norðurlofti kirkjunnar þar sem við sáum vel yfir kirkjugestina. Við fórum nefnilega í smá keppni. Við veðjuðum um hver gestanna yrði fyrstur til að sofna í kirkjunni, sem var oftast full af fólki og því frekar lítið um súrefni. Þess vegna kom reglulega fyrir að sérstaklega eldri menn dottuðu í kirkjunni. Spenningurinn var því oft mikill hjá okkur bræðrum yfir því hver sofnaði fyrstur í athöfninni, hvor okkar stæði uppi sem sigurvegari. Já, það var ýmislegt gert sér til skemmtunar í kirkjunni á aðfangadag áður en sest var niður við hátíðarkvöldverð á Iðavöllum. Þegar líða fór á kvöldið voru jólagjafirnar teknar upp. Það voru leikfangabílar og heilu dýragarðarnir sem voru heitustu gjafirnar á þeim tíma. Ríkidæmið var reyndar ekki fólgið í efnislegum gæðum, heldur samverustundum með fjölskyldunni og nægjuseminni sem gerði það að verkum að við og vorum þakklát fyrir það sem við fengum. Minningarnar frá bernskujólunum eru baðaðar miklum ljóma og gleði. Að lokum vil ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Lífið er núna.
Aðalsteinn Árni Baldursson