Fiskeldið Haukamýri við Húsavík hefur verið starfrækt á þriðja áratug og er því ein elsta fiskeldisstöð landsins. Stöðin sérhæfir sig í bleikjueldi frá klaki til fullunnar vöru. Framleiðsla hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár með gæði og stöðugleika að leiðarljósi. Á árinu 2023 verður framleiðslan rétt yfir 400 tonn sem er aukning milli ára. Fiskeldið Haukamýri er sjúkdómalaus umhverfisvæn stöð og ekki notuð nein lyf eða bóluefni. Þá notast stöðin við hágæða fóður unnið úr hráefnum frá óerfðabreyttri framleiðslu. Haukamýri hefur því verið með alþjóðlegu gæðavottunina AquaGap frá árinu 2013. Formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna, var boðið að skoða stöðina í gær undir leiðsögn auk þess sem hann spjallaði við starfsmenn sem flestir eru félagsmenn í Framsýn en um 16 stöðugildi eru í stöðinni. Greinilegt er að það er mikill mannauður hjá Fiskeldinu í Haukamýri enda úrvals starfsmenn við störf hjá fyrirtækinu.