Framsýn og Þingiðn stóðu fyrir sameiginlegum félagsfundi í gær um kjaramál, flugsamgöngur og íbúðakaup fyrir félagsmenn. Eins og áður hefur komið fram hafa stéttarfélögin í samráði við aðildarsambönd ASÍ unnið að því að ganga frá kröfugerð gagnvart Samtökum atvinnulífsins, ríkinu, sveitarfélögum og fjármálastofnunum. Að mati verkalýðshreyfingarinnar þurfa allir þessi hagsmunaaðilar að sameinast um að tryggja hér viðunandi ástand í efnahagslífinu með ásættanlegum kjarasamningi, helst langtíma samningi. Góðar umræður urðu um kjaramál og stöðuna en kjarasamningar félagsmanna Þingiðnar og Framsýnar á almenna vinnumarkaðinum falla úr gildi 31. janúar 2024.
Þá urðu umræður um flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Flugfélagið Ernir hefur boðað að hætta flugi um næstu mánaðamót milli þessara áfangastaða. Formaður Framsýnar sem á í viðræðum við flugfélagið ásamt stjórnendum Norðurþings sagðist nokkuð bjartsýn á það að ríkið kæmi með ríkisstyrk svo hægt yrði að viðhalda fluginu áfram. Það myndi væntanlega skýrast í vikunni, en aðilar það er fulltrúar flugfélagsins, Framsýnar og sveitarfélaganna á svæðinu funduðu um málið í gær og ætla að vera í frekara sambandi næstu daga.
Umræður urðu um kaup félaganna á tveimur orlofsíbúðum sem eru í byggingu í Hraunholtinu á Húsavík, það er í parhúsi. Félögin hafa haft til skoðunar að auka framboð á orlofshúsum fyrir félagsmenn. Að mati félaganna er hagstæðast að fjárfesta í íbúðum á Húsavík en um 60% félagsmanna Framsýnar búa utan Húsavíkur. Þá er kjörið að nota húsin í skiptum fyrir önnur orlofshús sem eru í eigu félaga innan ASÍ og BSRB. Þannig væri hægt, yfir sumarið, að auka möguleika félagsmanna stéttarfélaganna á því að dvelja í orlofshúsum víða um land. Fundarmenn samþykktu samhljóða að fela formönnum Framsýnar og Þingiðnar að ganga til viðræðna við verktaka sem er að byggja parhús í Hraunholti 22 um kaup á íbúðunum enda standist þær kröfur stéttarfélaganna. Um er að ræða 118 m2 íbúðir með útigeymslu.