Forsvarsmenn og starfsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa verið á ferðinni um landið síðustu vikurnar. Tilgangurinn hefur verið að funda með heimamönnum um komandi kjaraviðræður og stöðuna almennt í þjóðfélaginu. Á vef sambandsins kemur fram að opnu vinnufundirnir hafi verið vel sóttir og mikill samhljómur verið meðal gesta um þær áskoranir sem framundan eru og leiðirnar fram á við. Einhugur sé um að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja til langs tíma og innan svigrúms með það að markmiði að verja kaupmátt. Þá telji fólk almennt mikilvægt að hið opinbera leiði ekki launaþróun eða setji atvinnulífinu of þröngar skorður með íþyngjandi regluverki. Enn fremur hafa þátttakendur á fundunum sem flestir koma úr atvinnulífinu talið mikilvægt að almenningur og einstakir atvinnurekendur stuðli að upplýstri umræðu um samhengi launabreytinga og verðbólgu og að fræðsla um kaup, kjör og réttindi launafólks verði aukin. Í dag var komið að því að halda vinnufund á Akureyri sem var vel sóttur.
Formanni Framsýnar var boðið að taka þátt í fundinum sem og hann gerði ásamt Aðalsteini J. Halldórssyni starfsmanni stéttarfélaganna. Að þeirra sögn var fundurinn mjög áhugaverður og gott innlegg inn kjaraviðræðurnar sem eru framundan enda kjarasamningarnir á almenna vinnumarkaðinum lausir í lok janúar 2024.
Ef eitthvað er að marka þessa mynd sem er af talsmönnum SA og Framsýnar, þeim Eyjólfi Árna formanni og Sigríði Margréti framkvæmdastjóra auk Aðalsteins Árna formanni Framsýnar eiga kjaraviðræðurnar eftir að ganga vel í vetur. Hér eru þau fyrir framan lágmyndina sem nefnist; „Samvinna til sjávar og sveita“ og táknar samvinnu alþýðumanna.