Fjölmenni á samstöðufundi stéttarfélaganna á Húsavík

Tæplega 300 konur voru samankomnar á samstöðufundi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem fram fór í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík í dag, það er Framsýnar, STH og Þingiðnar.

Félögin stóðu einnig fyrir samstöðufundi á Raufarhöfn þar sem konur komu saman frá Raufarhöfn, Þórshöfn, Kópaskeri og úr nærliggjandi sveitum. Hátíðin sem fór vel fram, var haldin í Félagsheimilinu Hnitbjörgum. Nánar verður fjallað um fundinn á Raufarhöfn í sérstakri frétt síðar í dag.

Á samstöðufundinum á Húsavík voru fluttar ræður, ávörp, sungið, sagðar sögur og lesin ljóð. Þá var boðið upp á kaffi, kleinur og lagtertu.  Ósk Helgadóttir var aðalræðumaður dagsins. Christin Irma Schröder flutti kröftugt ávarp sem og Rannveig Benediktsdóttir sem fór yfir mikilvægi dagsins. Þá flutti Hermína Hreiðarsdóttir táknrænt ljóð og Guðný I. Grímsdóttir lagði fundinum til smá sögu úr baráttunni. Meðfylgjandi myndir segja allt sem segja þarf um stemninguna í dag sem var meiriháttar enda fundarsalurinn og allt húsnæði stéttarfélaganna fullt af baráttuglöðum konum á öllum aldri auk þess sem setið og staðið var utanhúss enda fullt út úr dyrum.

Deila á