Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar stéttarfélags gerði sér ferð til Reykjavíkur í gær til að funda með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um stöðu áætlunarflugs milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Flugfélagið Ernir hefur boðað að óbreyttu, að hætta flugi milli þessara áfangastaða um næstu mánaðamót. Auk þess að funda með fjármálaráðherra tók formaður Framsýnar einnig fundi með stjórnendum flugfélagsins þar sem hann ítrekaði mikilvægi þess að fluginu verði viðhaldið enda töluverður uppgangur framundan í Þingeyjarsýslum auk þess sem fjölmargir einstaklingar nýta sér flugið sem þurfa á sérfræðiþjónustu og annarri þjónustu að halda á höfuðborgarsvæðinu sem og viðskiptaerindum. Áður hafði hann átt símafund með forsætisráðherra. Besta árið flugu um 20.000 farþegar milli Húsavíkur og Reykjavíkur, það var árið 2016. Að sögn Aðalsteins gengu fundirnir vel. Fundurinn með fjármálaráðherra í gær hefði bæði verið upplýsandi og gefandi fyrir báða aðila. Ráðherra hefði fullan skilning á mikilvægi þess að flugi verði viðhaldið til Húsavíkur enda mikilvæg samgönguæð. Reiknað er með að niðurstaða liggi fyrir í málinu í lok vikunnar, það er hvort stjórnvöld komi að því styðja við bakið á fluginu til Húsavíkur líkt og með aðra áfangastaði á Íslandi sem Vegargerðin hefur boðið út til minni áfangastaða á Íslandi. Óhætt er að segja að það verði mikið fundað um málið út vikuna og mörg símtöl tekin enda mikið áfall fyrir Þingeyinga og alla þá sem ferðast þurfa inn á svæðið, verði fluginu hætt um næstu mánaðamót. Það má einfaldlega ekki gerast.