Fundað með starfsmönnum sveitarfélaga um nýjan kjarasamning- mikilvægt að menn kjósi um samninginn

Nýlega var undirritaður nýr kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum. Öll aðildarfélög SGS, 18 talsins, eiga aðild að samningnum. Samningurinn gildir í 6 mánuði, frá 1. október 2023 til 31. mars 2024, en fyrri samningur milli aðila rennur út þann 30. september næstkomandi.

Nýr samningur veitir kjarabætur fyrir einstök starfsheiti á leikskólum og í heimaþjónustu frá 1. október ásamt því að samið var um sérstakar launauppbætur á lægstu launaflokka 117-130 sem verða greiddar afturvirkt frá 1. apríl. Ný launatafla með starfaröðun upp í launaflokk 200 mun taka gildi frá 1. október, en hækkanir til SGS-félaga eru þegar komnar inn í töfluna frá 1. janúar 2023.  Desemberuppbót hækkar og verður kr. 131.000. Í samninginn eru færðar ýmsar breytingar sem unnið hefur verið að í samstarfsnefnd á árinu og eru þegar komnar til framkvæmda. T.a.m. voru gerðar breytingar á vaktahvatanum sem ætlað er að tryggja jafnari vaktahvata til handa þeim hópi sem er með mestan fjölda og fjölbreytileika vakta á hverju launatímabili.

Á heimasíðu SGS má finna kynningarefni og frekari upplýsingar um samninginn og atkvæðagreiðslu um hann. Aðildarfélög SGS veita einnig upplýsingar um samninginn og sjá um að kynna hann fyrir félagsmönnum sínum.

Hér er hægt að komast beint inn á innskráningu á kosningavefinn.

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning er rafræn og stendur frá kl. 12:00 fimmtudaginn 14. september til kl. 09:00 þann 26. september 2023.

Framsýn hefur undanfarið staðið fyrir kynningarfundum um samninginn, einn slíkur var haldinn á Húsavík í gær. Meðfylgjandi mynd er tekin á fundinum. Framsýn skorar á félagsmenn að kjósa um samninginn, verði hann ekki samþykktur stendur starfsmönnum sveitarfélaga ekki til launahækkanir að þessu sinni.

Deila á