Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar áttu á dögunum fund með lögreglunni á Norðurlandi eystra er varðar vinnustaðaeftirlit og eftirlit með löglegu vinnuafli á félagssvæði stéttarfélaganna. Lögregluþjónarnir Sigurður og Ólafur Hjörtur funduðu með fulltrúum stéttarfélaganna en þeir koma að landamæraeftirliti er tengist millilandaflugi um flugvöllinn á Akureyri og skipaumferð milli landa til og frá höfnum frá Siglufirði til Þórshafnar á Langanesi. Hvað vinnustaðaeftirlitið varðar hefur lögreglan sérstaklega verið að huga að því, að þeir sem koma hingað til lands í atvinnuleit, séu löglegir í vinnumarkaði auk þess að koma að öðrum verkefnum er lúta að málefnum erlendra aðila á starfssvæði lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.
Fulltrúar stéttarfélaganna gerðu lögreglunni grein fyrir stöðunni á svæðinu hvað vinnustaðaeftirlit varðar og miðluðu upplýsingum til þeirra varðandi brotastarfsemi á svæðinu.
Fundurinn var bæði gagnlegur og upplýsandi fyrir báða aðila. Niðurstaða fundarins var að efla samstarf lögreglunnar og stéttarfélaganna á þessu sviði er tengist því að menn starfi löglega á Íslandi. Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar lögreglunnar með formönnum stéttarfélaganna, Þingiðnar og Framsýnar auk Kristjáns Inga sem komið hefur að vinnustaðaeftirliti fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum.