Fyrr á árinu samdi Hvammur heimili aldraðra á Húsavík við Heilbrigðisráðuneytið um að Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) taki yfir rekstur hjúkrunar og dvalarrýma í Hvammi. Heilbrigðisstofnun Norðurlands og þar áður Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hafa verið með samning um stjórnun og hjúkrunarþjónustu á heimilinu frá árinu 2011. Mikil samlegð hefur verið í þessum rekstri og fagleg þjónusta hefur verið stórbætt undafarin ár samfara aukningu í fjölda hjúkrunarrýma. Þessi breyting er eðlilegt framhald af þessu farsæla samstarfi.
Undanfarna mánuði hafa staðið yfir viðræður milli HSN og Framsýnar um flutning starfsmanna milli stofnana hvað kjör og önnur réttindi varðar. Í morgun var komið að því að undirrita samkomulag milli aðila sem tryggir starfsmönnum óbreytt kjör við yfirtöku HSN á rekstri hjúkrunar og dvalarrýma í Hvammi. Samkomulagið nær til um þrjátíu starfsmanna. Það voru þeir Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sem skrifuðu undir samkomulagið.