Framsýn, í samvinnu við Þekkingarnet Þingeyinga stóð fyrir starfslokanámskeiði á Breiðumýri í vikunni. Var það seinna námskeiðið af tveimur sem auglýst voru á félagssvæðinu, en það fyrra var haldið á Húsavík í lok mars.
Námskeiðið á Breiðumýri var vel sótt af fólki víðs vegar að úr Þingeyjarsveit, en 15 þátttakendur voru skráðir til leiks. Starfslok þarf að undirbúa vel, enda margt sem breytist þegar vinnan sem svo lengi hefur skapað rammann um daglegt líf fólks er ekki lengur til staðar. Það eru eðlilega margar spurningar sem brenna á einstaklingum þegar fer að líða að því að þeir hætti á vinnumarkaði. Sumir hlakka þess að hætta að vinna og geta sökkt sér á kaf í áhugamálin, meðan aðrir kvíða því að hitta ekki lengur vinnufélagana og eiga jafnvel ekki önnur áhugamál en vinnuna. En starfslok snúast ekki eingöngu um það að hætta að vinna. Það eru margir aðrir þættir sem skipta einnig máli og á námskeiðinu var boðið var upp á fróðleg erindi og fræðslu í tengslum við þessi stóru tímamót í lífi einstaklinga.
Fyrirlesarar komu víða að. Dögg Stefánsdóttir lífsþjálfi flutti erindi sem hún nefndi: Kúnstin að hætta vinna og kom þar inn á andlega vellíðan og lífið eftir vinnu. Hrefna Regína Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari flutti einnig erindi um heilsu eldra fólks og tók þar fyrir líkamlega heilsu þessa aldurshóps. Ræddi hún m.a. um mikilvægi hreyfingar og heilsusamlegs mataræðis. Erindi Hrefnu nefndist: Heilsa á efri árum. Þá var kynning á starfi félaga eldri borgara í Þingeyjarsveit, en þau félög eru tvö í sveitarfélaginu. Ingvar Vagnsson formaður Félags eldri borgara í Þingeyjarsveit sagði frá starfi félagsins og Ásdís Illugadóttir formaður Félags eldri Mývetninga greindi frá því helsta sem er á döfinni hjá þeim. Einnig fór Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar yfir það skipulagða félagsstarf sem verið hefur á vegum Þingeyjarsveitar í vetur, en það fer fram á þremur stöðum í þessu víðfeðma sveitarfélagi, í Reykjahlíð, Stórutjarnaskóla og Þingeyjarskóla. Síðastar á mælendaskrá voru svo fulltrúar Lsj. Sapa, þær Jóna Finndís Jónsdóttir og Kristín Hilmarsdóttir sem fluttu mjög fróðlegt erindi um lífeyrisréttindi.
Þátttakendur voru mjög ánægðir með námskeiðið og töldu það gagnlegt. Þess má geta að námskeiðin voru öllum opin og þeim að kostnaðarlausu.