Mikið fjölmenni er samankomið á hátíðarhöldum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem að þessu sinni fara fram á Fosshótel Húsavík. Hátíðarhöldin hófust kl. 14:00 með því að Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti barátturæðu dagsins sem var kraftmikil að venju. Áður hafði Steingrímur Hallgrímsson spilað Internasjónalinn/alþjóðasöng verkalýðsins. Hér má lesa ræðuna:
Ágætu gestir.
Mig langar að byrja á því að bjóða ykkur hjartanlega velkomin á 1. maí hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Það er virkilega ánægjulegt að sjá ykkur hér í dag. Kjörorð dagsins er að þessu sinni réttlæti, jöfnuður og velferð, sem er í raun leiðarstefið í allri verkalýðsbaráttu. Dagurinn er ekki bara minningarhátíð um horfna daga, hann er einnig baráttudagur og alþýða manna um heim allan kemur saman til að minna á nauðsyn samstöðu.
Fyrir 100 árum sýndi íslenskt verkafólk fyrst samstöðu sína á baráttudegi verkalýðsins með kröfugöngu í Reykjavík. Aðstæður íslenskra launamanna voru ekki upp á marga fiska árið 1923. Verkafólk var almennt fátækt, eignalaust og réttlítið og fæstir höfðu fasta vinnu eða tryggt húsnæði til lengri tíma. Margir lifðu undir fátæktarmörkum við erfiði og sárustu örbirgð og bjuggu við ömurlegar aðstæður. Það var misskipting auðs og valds og auðvaldskreppan læsti krumlum sínum inn á heimili fátæks fólks, sundraði fjölskyldum og hungur og sjúkdómar lögðu fólk að velli.
Sjálfsagt finnst einhverjum hér inni ekki ástæða til skemma daginn með því að rifja upp svo löngu liðinn og heldur dapurlegan tíma í sögu þjóðarinnar, en ég leyfi mér hér að vitna í orð föður míns heitins, sem sagði svo gjarnan að það væri hverjum manni nauðsynlegt að þekkja rætur sínar. Ef við sem þjóð glötuðum sambandinu við sögu okkar og menningu forfeðranna ættum við enga framtíð fyrir okkur. Ég get heimfært þau orð föður míns upp á íslenska verkalýðsbaráttu og sagt að það er launafólki á hverjum tíma þarft að gera sér grein fyrir því að öll þau réttindi sem það nýtur komu ekki svífandi af himnum ofan, heldur eru þau tilkomin vegna baráttu liðinna kynslóða fyrir mannsæmandi lífi.
Kröfur fólksins sem þrammaði með fyrstu kröfuspjöldin niður Hverfisgötuna fyrir 100 árum voru knúnar áfram af neyð. Þar fóru einstaklingar sem upplifðu óréttláta stéttaskiptingu í landinu og kröfðust sanngjarnar skiptingu þjóðartekna. Kröfur þeirra beindust þá einkum að því að verkafólk fengi greitt fyrir vinnu sína í peningum, um hvíldartíma og mannsæmandi húsnæði.Við skulum muna að það var ekki gefið á þeim tíma að fólk fengist til að leggja nafn sitt við verkalýðsfélög, því atvinnurekendur töldu þann félagsskap til óþurftar og hikuðu ekki við að refsa mönnum með því að útiloka þá frá vinnu yrðu þeir uppvísir að slíku athæfi.
Það er óhætt að segja að saga íslensku þjóðarinnar síðustu 100 árin sé í raun ein samfelld ævintýra- og framfarasaga. Hún braust á ótrúlega skömmum tíma úr því að vera þjóð örbirgðar í það verða þjóð allsnægta og mikilla tækifæra. Því samhliða hefur launþegahreyfingunni vaxið fiskur um hrygg og auðnast að byggja upp öfluga fjöldahreyfingu launafólks á landinu undir hatti Alþýðusambands Íslands. Tveir þriðju hlutar launafólks í skipulögðum samtökum á Íslandi eru innan vébanda samtakanna, en meginhlutverk þess er nú sem fyrr að gera kjarasamninga um kaup og kjör og standa með öðrum hætti vörð um stöðu launafólks á vinnumarkaði.
Verkalýðshreyfingin er stærsta umbótaafl á Íslandi og hefur í gegnum tíðina barist fyrir flestum þeim framfaramálum sem við búum við í dag. Með ASÍ í fararbroddi hefur náðst mikill árangur í baráttunni fyrir bættum kjörum alþýðufólks síðustu öldina. Við getum nefnt þar baráttu fyrir mannsæmandi húsnæði fyrir launafólk, fyrir menntun á vinnumarkaði og uppbyggingu starfsendurhæfingar, lífeyrisrétt, almannatryggingar, fæðingarorlof, atvinnuleysis – og örorkubætur, sem og veikindarétt. Verkalýðshreyfingin hefur einnig beitt sér fyrir hugarfarsbreytingu í þágu jafnréttis og svo fyrir ótal mörgu öðru sem snýr að velferð almennings og breyttu viðhorfi samfélagsins.
Sigrar hreyfingarinnar í gegnum árin eru gott dæmi um það hversu miklu öflugur samtakamáttur getur komið til leiðar. Með öflugum samtakamætti voru heilu fjöllin færð úr stað og stærstu sigrarnir unnust. Þeir sigrar urðu fyrir samstöðu fólks sem trúði á réttlátt samfélag og bar sigurvissu háleitrar hugsjónar í hjartanu. Það er gulleggið okkar. Og hamingjan hjálpi okkur ef við glutrum því út úr höndunum á okkur.
Undanfarna mánuði og ár hafa illvígar deilur sett mark sitt á störf íslenskrar verkalýðshreyfingu. Það er reyndar ekkert nýtt að þar á bæ sé tekist á um stefnur og strauma innbyrgðist. Ágreiningurinn nú virðist hins vegar fyrst og fremst stafa af baráttu um völd innan hreyfingarinnar og það hefur étið hana upp innan frá. Fari málin á versta veg er hætt við að verkalýðshreyfingin missi trúverðugleika sinn og lendi hreyfingin í öngstæti bitnar það mest á hinum almennu félagsmönnum. Hinn almenni félagsmaður er ekki að kalla eftir átökum og fámennur hópur forystumanna á ekki að komast upp með að sundra verkalýðshreyfingunni. Ég hvet hlutaðeigandi aðila, forystumenn og stjórnarmenn í stéttarfélögum því, til að hætta að tala verkalýðshreyfinguna niður. Beinum slagkrafti okkar í rétta átt
Við þurfum að hafa í huga að upplausn innan verkalýðshreyfingarinnar færir þeim öflum vopn í hendur sem hafa í gegnum tíðina barist gegn bættum hag almennings. Enn hefur varðhundum íhaldsins ekki tekist ætlunarverk sitt sem hefur verið og er enn að knésetja verkalýðshreyfinguna. Þeir bregðast aldrei sínum herrum ránfuglarnir sem voka yfir dyrum Valhallar og sífellt bíða tækifæris til að höggva, til að grafa undan og standa gegn hvers kyns kjarabótum til handa almenningi í landinu. Til að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari.
Nýlegt frumvarp hægri manna á Alþingi um frjálsa félagaaðild að stéttarfélögum og lagt er fram í nafni frelsis og mannréttinda er gott dæmi þar um. Frumvarpið sem lagt er fram af meintri umhyggju fyrir vinnuaflinu,virðist helst hafa þann tilgang að grafa undan því kerfi sem við höfum nú þegar byggt upp. Það nýja frumvarp hefur beina vísun í það sem gerst hefur á Norðurlöndunum undanfarin ár. Þar hefur handbendum auðvaldsins, hægri stjórnum, tekist að veikja verkalýðshreyfinguna. Það er því miður daglegt brauð að brotið sé á erlendum starfsmönnum sem komið hafa til starfa í Skandinavíu. Þeim hefur markvisst verið haldið utan stéttarfélaga til að koma í veg fyrir að þeir geti sótt rétt sinn sé brotið á þeim. Aðbúnaður þessara starfsmanna er oft skelfilegur og launakjörin langt fyrir neðan skráð lágmarkslaun. Þessi leikur er þegar þekktur hér á landi og jafnvel eru dæmi þess að fyrirtæki hafi tekið yfir stéttarfélög eða stofnað sín eigin. Einnig eru dæmi þess að fólki sé beint eða óbeint bannað að vera í stéttarfélögum eða það sannfært um að stéttarfélög séu ekki til hagsbóta fyrir það.
Handbendar auðvaldsins sækjast eftir að rústa því kerfi sem erlendar verkalýðshreyfingar um allan heim öfunda okkur af, sem er að yfir 92% íslenskra launamanna eigi aðild að stéttarfélögum, en það er það hæsta sem þekkist innan OECD ríkjanna.
Góðir félagar. Við Íslendingar erum rík þjóð. Auðlindir okkar eru gjöfular og hafa verið nýttar til að byggja upp það nútímasamfélag sem við búum í í dag. Okkur hefur tekist að móta samfélagið þannig að í samanburði við aðrar þjóðir höfum við komið vel út. Hér hefur jafnrétti mælst með því besta sem þekkist í heiminum. Ennþá getum við státað af því að hlutfall ungs fólks sem hvorki stundar nám né vinnu er með því lægsta sem þekkist, að laun séu hér með því hæsta sem þekkist, sem og almenn lífsgæði og í samanburði við aðrar þjóðir er ójöfnuður ennþá til þess að gera lítill. Viljum við halda þessum árangri? Þá er ekki tilefni til að taka upp árar og láta reka því enn er það gamalkunn misskipting auðs og valds sem heldur hluta samfélags föstum í gömlu hjólförunum með sínum skítugu krumlum.
Það er ekki nóg að skora hæst í jafnrétti þegar fullu jafnrétti hefur ekki verið náð. Það er ekki nóg að byggja hlý og góð húsakynni þegar það er fólk á okkar landi sem býr í saggafullum kolakompum og kjallaraholum við heilsuspillandi aðstæður og það er ekki ásættanlegt að hafa náð árangri í að bæta kjör fólks þegar sístækkandi hópur fólks á ekki fyrir húsaleigu, mat, lyfjum eða öðrum nauðsynjum og verður því að leita til hjálparsamtaka til að draga fram lífið.
Við skulum spyrja okkur í fullri hreinskilni hvort það sé jöfnuður að eigendur örfárra fyrirtækja nýti sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og greiði sér stórkostlegan arð á meðan minnst 10.000 börn á Íslandi búa við fátækt. Það væri hins vegar jöfnuður ef þær atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar greiddu fyrir það sanngjörn auðlindagjöld. Þá fengi þjóðin notið afraksturs auðlinda sinna.
Við erum að upplifa það að hugsjónir jafnaðar, félagshyggju og samhjálpar séu á undanhaldi, en ójöfnuður og einstaklingshyggja taki æ meira yfir. Er því ekki orðið tímabært að við spyrjum okkur sem þjóð hvernig samfélag það sé sem við viljum við byggja upp á Íslandi? Viljum við kannski áfram snúa blinda auganu að hinum sívaxandi ójöfnuði, sem setur mark sitt á hið nýríka borgríki markaðshyggjunnar? Ætlum við, almenningur á Íslandi að hlaupa áfram eins og hamstrar á hjóli og herða sultarólina um eitt gatið enn af því að okkur hefur verið sagt að við berum ábyrgð á verðbólgunni með óhóflegri eyðslu? Eigum við ekki frekar að vera minnug þess að það er rúmur áratugur síðan þúsundir fjölskyldna á Íslandi afhentu fjármálafyrirtækjum heimili sín á silfurfati og samfélagið var rústir einar. Hvað bull er þetta eiginlega? Verkalýðshreyfingin hefur hér mikilvægu hlutverki að gegna, það er í varðstöðu um velferð fyrir alla, ekki fáa útvalda. Gleymum því ekki að ójöfnuður er mannanna verk.
Góðir félagar. Við höfum svo sannarlega verk að vinna við að verja þann mikilvæga árangur sem náðst hefur um leið og við sækjum fram til nýrra sigra. Hreyfingin verður að vera reiðubúin til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og þær krefjandi aðstæður sem fylgja því að standa í stafni þjóðarskútunnar. Að bæta kjör fólks hefur ætíð krafist baráttu og samstöðu og við getum treyst því að svo verður áfram. Vinnum því áfram saman að því að byggja upp réttlátt samfélag. Samfélag jöfnuðar, þar sem komið er fram við alla af sanngirni og virðingu. Þar sem launafólk, jafnt erlent sem íslenskt, nýtur ávaxtanna af erfiði sínu. Þar sem öllum hópum samfélagsins er gert fært að búa við fjárhagslegt öryggi og lifa með reisn. Í þeirri baráttu er mikilvægt að við stöndum saman sem órofa heild.
Við skulum heldur aldrei gleyma því fornkveðna að sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér. Það á vel við í dag.
Takk fyrir