Stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn, stóðu fyrir kynningarfundi í byrjun mars um lífeyrismál og breytingar sem fyrirhugaðar eru á samþykktum Lsj. Stapa. Í upphafi fundar fór formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, nokkrum orðum um mikilvægi þess að félagsmenn væru vel inn í sínum málum er varðaði lífeyrisréttindi. Þess vegna hefði hann viljað sjá miklu fleiri sjóðfélaga á þessum mikilvæga fundi. Hann sagði fundinn haldinn í samstarfi við Lsj. Stapa. Því næst gaf hann gestum fundarins þeim Jóhanni Steinari og Jónu Finndísi orðið en þau skiptu með sér kynningunni á lífslíkum sjóðfélaga með tilliti til eftirlauna og örorku auk þess að fjalla um stöðu sjóðsins og framtíðarhorfur. Nýlega var lögð fram ný spá um lífslíkur fólks sem gerir ráð fyrir því að lífslíkur haldi áfram að hækka til framtíðar. Spáin hefur veruleg áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða. Frummælendur gerðu auk þess grein fyrir þeim hugmyndum sem unnið er eftir við að innleiða hækkandi lífslíkur í samþykktir sjóðsins. Reiknað er með því að tillögur þess efnis verði lagðar fyrir ársfund sjóðsins í vor. Áður verða þær til umræðu á fulltrúaráðsfundi, það er fyrir ársfundinn. Þau gerðu einnig grein fyrir rekstri sjóðsins og ávöxtun á nýliðnu ári. Jóhann Steinar og Jóna Finndís fengu fjölmargar spurningar frá áhugasömum fundarmönnum sem þau svöruðu eftir bestu getu. Eftir góðar og upplýsandi umræður þökkuðu gestirnir fundarmönnum fyrir góða þátttöku í umræðunum um leið og fundarmenn þökkuðu þeim sömuleiðis fyrir komuna. Hægt verður að fræðast betur um fyrirhugaðar breytingar á réttindakerfi sjóðsins inn á heimasíðu Lsj. Stapa, www.stapi.is.