Auka þjónustu við erlenda félagsmenn

Eins og kunnugt er hefur erlendum starfsmönnum sem koma til Íslands fjölgað verulega á síðustu árum, það á við um félagssvæði Framsýnar og annarra stéttarfélaga á Íslandi. Kallað hefur verið eftir því að stéttarfélögin gerðu sitt besta til að bæta þjónustuna við þennan stóra hóp verkafólks. Til að mæta þörfinni hafa stéttarfélögin ráðið Agnieszku Szczodrowsku í 50% starf hjá stéttarfélögunum og hóf hún störf í morgun. Aga var valin úr hópi 21 umsækjanda um starfið. Henni er ætlað að þjóna m.a. erlendum starfsmönnum er varðar þeirra réttindi á vinnumarkaði sem og öllum þeim öðrum sem leita til skrifstofunnar eftir upplýsingum. Þá mun hún einnig koma að vinnustaðaeftirliti fyrir stéttarfélöginn. Aðalsteinn J. Halldórsson var áður í því starfi, það er áður en hann hætti hjá stéttarfélögunum. Frá þeim tíma hefur vinnustaðaeftirlitið að mestu legið niðri en með ráðningu á Ögu verður tekið myndarlega á þeim málum. Við bjóðum Ögu velkomna til starfa en hún verður til staðar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.

Aga þekkir vel til starfa stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hún hefur komið að því að túlka fyrir félögin þegar þess hefur þurft með auk þess að vera til staðar á viðburðum sem félögin hafa staðið fyrir og tengjast erlendu vinnuafli á svæðinu. Á meðfylgjandi mynd er Aga að túlka á ljósmyndasýningu sem Framsýn stóð nýlega fyrir í Safnahúsinu af erlendu verkafólki við störf.
Deila á