Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti á fundi sínum 18. október að setja sér skýrar reglur varðandi kaup á vörum og þjónustu af öðrum aðilum. Lögfræðingar félagsins komu að því að vinna stefnuna með forsvarsmönnum Framsýnar. Ekki er vitað til þess að stéttarfélög á Íslandi hafi sett sér sambærilegar reglur sem þessar. Eins og kveðið er á um í 1. grein stefnunnar er markmiðið að stuðla að vönduðum og hagkvæmum kaupum á vörum og þjónustu af hálfu Framsýnar og tryggja góða og viðurkennda viðskiptahætti. Þá skal Framsýn sýna samfélagslega ábyrgð og leitast við að eiga viðskipti við ábyrga aðila. Með vörum og þjónustu í stefnunni er átt við samninga í víðari merkingu, þ.á.m. stærri framkvæmdir og endurnýjanir sem Framsýn kann að ráðast í. Reiknað er fastlega með að Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur samþykki einnig að vinna eftir þessari stefnu. Félögin munu fjalla um málið í næstu viku en þau eru í sameiginlegum rekstri með Framsýn sem halda úti Skrifstofu stéttarfélaganna.
Innkaupastefna Framsýnar stéttarfélags
- Tilgangur stefnu þessarar er að stuðla að vönduðum og hagkvæmum kaupum á vörum og þjónustu af hálfu Framsýnar og tryggja góða og viðurkennda viðskiptahætti. Framsýn skal sýna samfélagslega ábyrgð og leitast við að eiga viðskipti við ábyrga aðila. Með vörum og þjónustu í stefnu þessari er átt við samninga í víðari merkingu, þ.á.m. stærri framkvæmdir og endurnýjanir sem Framsýn kann að ráðast í.
- Kaup Framsýnar á vörum og þjónustu skulu vera í samræmi við ákvæði laga og reglna um eðlilega viðskiptahætti. Beita skal markvissum og skipulögðum vinnubrögðum við kaup á vörum og þjónustu til að stuðla að gagnsæi og hagkvæmni í rekstri. Áhersla skal lögð á samkeppni og jafnræði.
- Ábyrgð á kaupum á vörum og þjónustu er á hendi forstöðumanns, en hann sér jafnframt um að samningar séu gerðir í samræmi við rekstrar- og fjárhagsáætlun stjórnar.
- Þegar stjórn Framsýnar ákveður skal kaup á vörum og þjónustu fara fram með því að leitað sé tilboða frá fleiri en einum aðila eða gerð verðkönnun og að samið sé við bjóðendur á grundvelli hagkvæmni og gæða. Undantekning frá þessu er þegar um er að ræða einstök kaup, minni háttar samninga, samninga með takmarkaðan gildistíma, kaup á vörum eða þjónustu sem þola ekki bið eða aðrar ríkar ástæður eru til staðar.
- Telji forstöðumaður það hagkvæmt getur hann ákveðið að framlengja, gera viðauka eða endurnýja einstaka samninga um kaup á vörum eða þjónustu.
- Mál er varða innkaup á vöru eða þjónustu að undangengnum tilboðum eða verðkönnunum skulu vera rekjanleg eins og kostur er þannig að ef stjórn Framsýnar ákveður að skoða einstök viðskipti skal forstöðumaður leggja fram nauðsynleg gögn yfir ferli viðkomandi tilboða eða verðkannana.
- Samningar um kaup á vörum eða þjónustu skulu vera skriflegir og undirritaðir af forstöðumanni. Forstöðumaður getur þó gefið einstökum starfsmönnum umboð til að undirrita minni háttar samninga. Ef um er að ræða mjög stóra samninga eða samninga sem eru stefnumarkandi fyrir Framsýn skulu þeir einnig vera samþykktir af stjórn.
- Starfsmenn Framsýnar eða einstakir stjórnarmenn mega ekki eiga aðild að ákvörðunum um kaup eða tilboð á vörum og þjónustu er varða aðila sem þeim eru náskyldir eða hagsmunatengdir nema um sé að ræða minni háttar kaup, sbr. 2. málsl. 4. gr.
- Framsýn kaupir einungis vöru og þjónustu frá aðilum sem virða kjarasamninga og réttindi starfsmanna sinna og stéttarfélaga.