Fjölmiðlar hafa verið uppfullir af fréttum af þingi Alþýðusambands Íslands sem fram fór í vikunni. Því miður hefur umfjöllunin aðalega snúið að átökum innan hreyfingarinnar um menn og málefni. Eins og kunnugt er gengu fulltrúar VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Grindavíkur af þinginu eftir að formenn þessara félaga drögu til baka framboð sín til embætta innan sambandsins eftir hatursorðræðu í þeirra garð og ásakanir um ofbeldi, einelti og valdasýki frá öðrum forystumönnum sem eiga ekki við rök að styðjast. Það er frá aðilum sem haldið hafa um völdin innan Alþýðusambandsins. Kallað hefur verið eftir breytingum á forystusveit sambandsins. Því miður tókst ekki að klára verkefni þingsins og kjósa í embætti s.s. forseta sambandsins og fulltrúa í miðstjórn fyrir næsta kjörtímabil vegna útgöngu þessara félaga. Þinginu var því frestað fram á næsta ár, óvíst er hvenær það verður haldið en það er í höndum miðstjórnar að ákveða það. Í ljósi aðstæðna, eftir að fjórmenningarnir drögu framboð sín til baka, komu nokkrir þingfulltrúar að máli við formann Framsýnar og báðu hann um að gefa kost á sér sem forseti ASÍ. Auk þess sem mörgum var greinilega brugðið við fréttirnar sem upplifðu umræðuna á þinginu í gegnum fjölmiðla, sé tekið mið af öllum þeim skilaboðum sem formanni Framsýnar barst frá almenningi þar sem skorað var á hann að stiga fram og gefa kost á sér sem forseti sambandsins. Fyrir liggur að hann hefur ekki verið að sækjast eftir því að verða forseti Alþýðusambands Íslands.