Minningargrein -Sófus Páll Helgason-

Fallegur dagur er runnin upp við Skjálfanda og haustið skartar sínu fegursta í veðurblíðunni og kyrrðinni sem oft er einstök á þessum árstíma. Litskrúð náttúrunnar er engu líkt þessa dagana, nú þegar veðrabreytingar eru í aðsigi og það styttist í komu fyrstu haustlægðarinnar. Það eru blikur á lofti.

Frístundabændur í Grobbholti eru mættir í hús til að vigta og fara í gegnum bústofninn eftir göngur og frekar vætusamt sumar. Það er stemning í hópnum, menn eru kátir og hjálpast að við að undirbúa vigtunina „Hvar er Páll?“ heyrist kallað. Félagi Sófus Páll Helgason, eða Palli eins og hann var ávallt nefndur, hefur fram að þessu haft það hlutverk að skrásetja þyngd og númer á vigtuðum lömbum, enda hluti af hópnum. Hann er nú fjarri góðu gamni, í langþráðu sumarfríi með Nínu sinni á Tenerife. Palla hefur verið best treyst fyrir þessu mikilvæga hlutverki, enda ábyrgur maður í alla staði og óspar á að senda mönnum tóninn reyni þeir að þyngja eigin lömb með því að leggja hendur ofan á þau svo þau virki aðeins meiri á vigtinni.

En líkt og með veðurfarið getum við aldrei stólað á að lífið og tilveran sé okkur hliðholl. Eins og hendi sé veifað er gleðin á bak og burt þegar knúið er dyra í Grobbholti með sorgarfréttir. Félagi Páll er fallinn frá, hafði orðið bráðkvaddur þennan sama dag á Tenerife. Það gat ekki verið að þetta væri að raungerast. Palli sem hafði verið með okkur í anda við vigtunina var ekki lengur á meðal vor. Dimmt ský leggst yfir félagahópinn, menn setur hljóða og tár falla niður vanga.

Upp í hugann koma margar góðar minningar enda höfum við Palli allt frá unga aldri verið samferða í gegnum lífið. Nokkuð sem ég hafði ekki áttað mig á fyrr en ég settist niður til að skrifa minningarorð um góðan félaga. Það hefur verið þægilegt að stíga ölduna með Páli í gegnum lífið, enda einstakur maður í alla staði. Snemma tókum við þátt í  harðvítugum bardögum þess tíma milli Torgara og Hólara, en þá þekktist að unglingar færu milli hverfa á Húsavík til að berjast, oftast í góðu með heimatilbúnum trésverðum og skjöldum og síðar teygjubyssum sem þóttu mikil vopn þess tíma. Á þeim tíma vorum við Palli ekki í sama liði, hann var Hólari en ég aftur á móti Torgari. Félagi Palli var snemma mikið heljarmenni, enda vorum við Torgarar fljótir að gefast upp yrðum við þess varir að hann færi fyrir liði Hólara. Við höfðum einfaldlega ekkert í hann að gera og lögðum því auðsveipir niður vopn. Sigrarnir voru hins vegar auðsóttir ef hann kom því ekki við að berjast með Hólurum.

Við vorum hins vegar í sama liði þegar við stunduðum handbolta með Völsungi, reyndar var ég yngri og lék því í næsta flokki fyrir neðan. Palli var með betri línumönnum sem Völsungur hefur átt í handbolta. Við kepptum reglulega við Þór og KA og það var ekki laust við að við strákarnir kenndum í brjósti um andstæðinga okkar, sem reyndu hvað þeir gátu að stöðva Pál, en þó hann væri með þá tvo til þrjá á bakinu höfðu þeir ekkert í hann að gera. Reyndar lokuðum við oft augunum þegar heljarmennið kastaði sér inn af línunni og skoraði glæsimörk fyrir Völsung. Þá kom fyrir að þeir andstæðingar sem hvað fastast höfðu hangið í honum, lentu undir okkar manni og gengu ráfandi af velli eftir viðskiptin við hann. Það voru ekki lætin í Páli, en hann  var fastur fyrir.

Eftir unglingsárin störfuðum við Palli saman hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur við almenn fiskvinnslustörf, auk þess að vera í löndunargengi fyrirtækisins, sem sá um að landa úr togurum og öðrum vertíðarbátum. Það var ekki nóg með að við værum samstarfsfélagar, heldur stofnuðum við heimili á svipuðum tíma og eignuðumst okkar fyrstu börn á sama árinu. Þá höfum við Jónína Hermannsdóttir eiginkona Páls unnið saman á Skrifstofu stéttarfélaganna frá árinu 1996.

Eftir góðan tíma hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur skildu leiðir tímabundið. Palli réði sig á togarann Kolbeinsey ÞH og ég hélt til starfa hjá Verkalýðsfélagi Húsavíkur, síðar Framsýn. Þrátt fyrir að við færum í sitt hvora áttina  náðum við aftur saman þegar Páll kom alkominn í land til að læra fiskeldisfræði við Hóla í Hjaltadal. Eftir námið réði hann sig til starfa hjá Fiskeldisfyrirtækinu Rifós í Kelduhverfi. Með störfum sínum hjá Rifós gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Framsýn stéttarfélag.

Það hafði lengi blundað í Páli að fá sér kindur sér til gamans. Úr varð að hann gerðist aðili að Grobbholti á Húsavík, þar sem hann hélt nokkrar kindur til margra ára með okkur öðrum frístundabændum sem eiga það sameiginlegt að hafa líf og yndi af því að umgangast sauðfé. Páll var kannski ekki sá fjárgleggsti í hópnum, en hann var með öll eyrnamerki á hreinu væru þau nefnd í hans eyru. „Þetta er mín, Vogey“ fullyrti hann hiklaust eftir að honum hafði verið sagt hvaða númer væri í eyranu. Þá hafði hann gott auga fyrir fjárrækt enda yfirleitt með bestu meðalvigtina í Grobbholti. Já það er mikill sjónarsviptir af höfðingjum eins og Páli Helgasyni. Hans verður sárt saknað. Hafðu kærar þakkir fyrir samfylgdina í gegnum lífið kæri vinur og félagi. Elsku Jónína og fjölskylda. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum og megi góður guð gefa ykkur kærleik og styrk í sorginni. Minning um góðan mann mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Deila á