Aðalfundur Þingiðnar fór fram í gær. Fundurinn fór vel fram og urðu góðar umræður á fundinum um málefni félagsins og komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins. Samþykkt var að stórhækka greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins sem lesa má um í skýrslu stjórnar sem er hér meðfylgjandi. Fundurinn samþykkti jafnframt að skýra betur réttindi félagsmanna við starfslok. Þá var ákveðið að taka þátt í kaupum á meðferðarstól fyrir þá sem eru í krabbameinsmeðferð á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Meðfylgjandi er skýrsla stjórnar sem staðfestir öflugt starf félagsins sem og þær hækkanir sem koma til framkvæmda 1. júlí til félagsmanna úr sjúkrasjóði. Einnig fylgja með reglur réttindi félagsmanna við starfslok.
Fullgildir félagsmenn
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2021 voru 111, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins. Greiðandi félagsmenn voru 101. Þess ber að geta að nú er aftur komið jafnvægi á fjölda félagsmanna eftir stórframkvæmdirnar á svæðinu. Félagsmönnum fjölgaði verulega meðan á framkvæmdunum stóð en hefur heldur fækkað frá þeim tíma sem á sínar eðlilegu skýringar enda framkvæmdum að mestu lokið í dag. Töluvert hefur verið um nýbyggingar á svæðinu undanfarið sem hefur tryggt gott atvinnuástand meðal iðnaðarmanna.
Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2021 námu kr. 14.924.508 sem er 2,35% lækkun frá fyrra ári. Heildartekjur námu kr. 17.642.587 og hækkuðu um 2%. Rekstrargjöld voru kr. 23.773.630 og hækkuðu um 75% frá síðasta ári. Þar ræður mestu bætur og styrkir sem hækkuðu umtalsvert á milli ára. Á árinu 2021 námu þeir kr. 12.485.959, þar af úr sjúkrasjóði kr. 11.396.896, sem er um 267% hækkun frá 2020 og skýrist fyrst og fremst af hærri greiðslum sjúkradagpeninga til félagsmanna. Árið 2021 voru alls greiddir úr sjúkrasjóði 72 styrkir eða sjúkradagpeningar til félagsmanna. Árið áður voru greiddir 41 styrkur. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 1.092.593. Heildareignir í árslok voru kr. 262.257.791 og eigið fé nam kr. 251.517.117 og hefur það aukist um 0,44% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 3.338.243. Farið var í átak í innheimtu félagsgjalda og skilagreina í lok árs 2020 og hluti af því var að fara í samstarf um innheimtu við Motus. Það hefur gefist vel og almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þeir fáu sem gera það ekki valda þó því að útistandandi iðgjöld hækka verulega á milli ára sem er ákveðið áhyggjuefni.
Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eiga mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Í því sambandi má nefna að framboð félagsmanna í gegnum orlofsvef stéttarfélaganna hefur verið stóraukið með samningum við ferðaþjónustuaðila víða um land. Þannig vilja félögin stuðla að því að félagsmenn geti notið þess að fara í frí innanlands. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum stéttarfélaganna. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl. Þá fengu 17 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 408.100,-. Sumarið 2021 stóðu stéttarfélögin fyrir sumarferð í Flatey á Skjálfanda. Ferðin tókst í alla staði mjög vel. Í haust stendur til að fara í gönguferð í Bárðardal, það er niður með Skjálfandafljóti.
Til viðbótar gafst félagsmönnum kostur á að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Húsavík – Reykjavík. Verðið hefur undanfarið verið kr. 12.000,- per flugmiða. Ekki er ólíklegt að forsendan fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sé ekki síst samningur stéttarfélaganna við flugfélagið. Kæmi ekki til þessa samkomulags væri farþegafjöldinn ekki sá sami og hann hefur verið allt frá því að gengið var frá samkomulaginu á sínum tíma.
Þorrasalir 1-3
Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.
Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn í gegnum nýja fræðslusjóðinn sem félagið stofnaði til 2018. Á síðasta ári fengu 5 félagsmenn styrki úr sjóðnum til náms/námskeiða samtals kr. 130.000,-.
Málefni sjúkrasjóðs
Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 11.396.896 á árinu 2021 sem er umtalsverð hækkun milli ára. Árið 2020 voru greiddar kr. 2.440.157 í styrki til félagsmanna.
Kjaramál
Eins og kunnugt er var skrifað undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 3. maí 2019 með gildistíma til 1. nóvember 2022. Það hefur því verið rólegt yfir samningagerð á vegum Samiðnar sem fer með samningsumboð félagsins. Þann 1. janúar 2021 komu til frekari breytingar vinnutíma iðnaðarmanna en þá var opnað á þann möguleika að semja um styttingu vinnuvikunnar í 36 vinnustundir. Samið var um að hún kæmi að fullu til framkvæmda í síðasta lagi 1. janúar 2022.
Vitað er að hluti fyrirtækja á félagssvæði Þingiðnar hafa tekið nýja kerfið upp meðan önnur fyrirtæki hafa haldið í gamla kerfið. Þá hefur tvískipt yfirvinna flækt málið hjá verktökum sem selja út starfsmenn í vinnu þar sem gera þarf ráð fyrir mismunandi yfirvinnukaupi hjá starfsmönnum við útreikninginn á útseldri vinnu. Um þessar mundir er að hefjast undirbúningur að gerð kröfugerðar á vegum Samiðnar. Kallað hefur verið eftir kröfum frá aðildarfélögum sambandsins, þar á meðal frá Þingiðn.
Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið í gangi á svæðinu.
Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn, hafa frá árinu 2016 rekið öflugt vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu. Um tíma voru félögin með sérstakan mann í eftirlitinu. Félögin hafa nú lagt starfið niður. Þess í stað sjá starfsmenn stéttarfélaganna um eftirlitið með öðrum störfum á skrifstofunni.
Mikið hefur verið lagt upp úr góðu samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir. Í því sambandi hafa stéttarfélögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Félagið hefur hins vegar kallað eftir því að aðrar eftirlitsstofnanir verði virkari í vinnustaðaeftirliti s.s. Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott varðandi réttindi og kjör félagsmanna. Vitaskuld hafa annað slagið komið upp mál sem krefjast viðbragða, hjá því verður ekki komist. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna. Vissulega var lítið um vinnustaðaeftirlit á árinu 2021 og það sem af er þessu ári vegna Covid. Framundan eru án efa bjartari tímar og þá verður um leið settur aukinn kraftur í vinnustaðaeftirlitið.
Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2022 eftir tveggja ára hlé vegna Covid. Boðið var upp á veglega hátíð þar sem heimamenn voru í aðalhlutverki. Ræðumenn dagsins voru Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir. Athygli vakti að helmingi færri mættu á hátíðarhöldin í ár en undanfarin ár eða um 250 manns. Vissulega var hátíðinni streymt í fyrsta skiptið sem getur hafa haft áhrif á mætinguna sem og Covid. Í ljósi þessa telur stjórn Þingiðnar tímabært að endurskoða hátíðarhöldin, það er með hvaða hætti sé best að halda upp á baráttudag verkafólks á komandi árum. Til stendur að skipa nefnd á vegum stéttarfélaganna sem ætlað er að leggja fram tillögur um tilhögun hátíðarhaldanna í framtíðinni.
Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:
Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.
Félagið hefur komið að kynningum á starfsemi stéttarfélaga í grunnskólum á félagssvæðinu með Framsýn stéttarfélagi. Húsasmiðjan tók ákvörðun um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um áramótin 2021/22. Stéttarfélögin mótmæltu lokuninni harðlega og funduðu m.a. með forsvarsmönnum Húsasmiðjunnar. Þrátt fyrir mótmælin, ekki bara frá stéttarfélögunum heldur frá heimamönnum stóð ákvörðunin um að hætta rekstri á Húsavík sem voru mikil vonbrigði. Að frumkvæði stéttarfélaganna komu forstjóri Bykó og aðstoðarmaður hans til Húsavíkur og funduðu meðal annars með forstöðumanni Skrifstofu stéttarfélaganna. Einnig héldu þeir fund með fulltrúum úr sveitarstjórn Norðurþings ásamt verktökum og öðrum áhugamönnum um málið. Forsvarsmenn Bykó tóku vel í hugmyndir heimamanna um að opna verslun á Húsavík, en sáu ekki grundvöll fyrir því að opna verslun enda með öfluga verslun á Akureyri. Voru þeir hins vegar ánægðir með bjartsýni og dug heimamanna með að beita sér í málinu. Svo fór að heimamenn opnuðu byggingavöruverslun sem fékk nafnið Heimamenn. Ástæða er til að þakka eigendum Heimamanna, sem eru verktakar á Húsavík, fyrir ákvörðunina um að opna verslun í kjölfar þess að Húsasmiðjan lokaði um síðustu áramót. Samþykkt var að styrkja söfnun um kr. 50.000,- vegna kaupa á sérstökum lyfjastól fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Um er að ræða stól sem notaður er við krabbameinsmeðferðir.
Samkomulag við Flugfélagið Erni
Stéttarfélögin eru með samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið byggir m.a. á því að stéttarfélögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselja til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn þegar við horfum til þess að félagið hefur sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan félagið hóf að selja félagsmönnum flugmiða á þessum hagstæðu kjörum. Með nýlega endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið tókst félögunum að tryggja félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2022. Verð til félagsmanna í dag er kr. 12.000,- per flugmiða/kóða.
Húsnæði stéttarfélaganna
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf. Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið vel. Um þessar mundir eru öll skrifstofurými í notkun og rúmlega það þar sem fundarsalurinn er einnig í útleigu. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26. Árið 2021 fjárfesti Hrunabúð í íbúð á efri hæð Garðarsbrautar 26. Kaupverðið var 48 milljónir. Heildarvelta félagsins árið 2021 var kr. 7,6 milljónir samanborið við kr. 5,7 milljóna veltu árið 2020. Tekjuafgangur ársins nam kr. 0,3 milljón samanborið við kr. 0,1 milljón árið 2020. Íbúðin sem um ræðir er alls 232,2 fm. Búið er að innrétta um 180 fm. af íbúðinni. Íbúðin er í mjög góðu standi en ráðast þurfti í lagfæringar á íbúðinni, það er á vegg milli baðherbergis og þvottahúss vegna myglu. Meðfylgjandi íbúðinni er ófrágengið rými upp á um 50 fm. Íbúðin er í útleigu. Einn starfsmaður starfaði hjá Hrunabúð á árinu í hlutastarfi.
Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu.
Málefni skrifstofunnar
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Framsýn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Að auki starfa 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá Framsýn/Þingiðn við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Þá er einn starfsmaður í 5% starfi á Raufarhöfn. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál. Hvað heimasíðuna varðar, þá var samið við hugbúnaðarfyrirtækið AP um að gera verulegar breytingar á síðunni og gera hana notendavænni fyrir félagsmenn í samráði við starfsmenn stéttarfélaganna. Samstarfið gekk afar vel og er afraksturinn eftir því. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar þrátt fyrir að það hafi dregið aðeins úr þeim um tíma vegna Covid. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna. Frá og með áramótunum 2021/22 urðu breytingar á lögfræðiþjónustu við félagsmenn. Samið var við PACTA lögmannstofu á Akureyri um að taka yfir gjaldþrotamálin sem Jón Þór Ólason lögmaður var með áður fyrir félögin. PACTA hefur fram að þessu séð um alla innheimtu á útistandandi skuldum fyrirtækja við stéttarfélögin, auk þess að sjá um almenna þjónustu við félagsmenn sem þurfa á lögfræðiþjónustu að halda er varðar þeirra einkamál. Gjaldþrotamálin bættast nú við þessa þjónustu lögmannstofunnar. Þá var jafnframt samið við Sókn lögmannsstofu á Egilsstöðum um að taka að sér þau mál er varða slysa- og vinnuréttarmál félagsmanna sem fara í gegnum Skrifstofu stéttarfélaganna. Eva Dís Pálmadóttir framkvæmdastjóri Sóknar verður jafnframt aðallögmaður stéttarfélaganna.
Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.
Hækkanir á styrkjum úr sjúkrasjóði:
Eftirfarandi tillögur um hækkanir styrkja úr sjúkrasjóði félagsins til félagsmanna voru teknar fyrir og samþykktar samhljóða. Þær taka mið af sambærilegum breytingum og teknar verða fyrir á aðalfundi Framsýnar á morgun. Reiknað er með að þær taki gildi frá 1. júlí 2022. Rétt er að taka fram að núverandi úthlutunarreglur halda sér hvað aðra þætti varðar.
- Heimilt verði að endurgreiða félagsmönnum sem fara í sjúkranudd allt að kr. 3.500,- fyrir hvern tíma í stað kr. 2.500,-. Þó aldrei fleiri en 24 tíma á hverju almanaksári.
- Heimilt verði að endurgreiða félagsmönnum sem fara í meðferð hjá kírópraktorum allt að kr. 3.500,- fyrir hvern tíma í stað kr. 2.500,-. Þó aldrei fleiri en 24 tíma á hverju almanaksári.
- Heimilt verði að endurgreiða félagsmönnum sem fara í heilsunudd hjá viðurkenndum heilsunuddara allt að kr. 3.500,- fyrir hvern tíma í stað kr. 2.200,-. Þó aldrei fleiri en 24 tíma á hverju almanaksári.
- Heimilt verði að endurgreiða félagsmönnum sem fara í nálastungumeðferð hjá viðurkenndum aðilum allt að kr. 3.500,- fyrir hvern tíma í stað kr. 2.200,-. Þó aldrei fleiri en 24 tíma á hverju almanaksári.
- Heimilt verði að endurgreiða þeim sem dvelja á Heilsustofnun NLFI í Hveragerði eða sambærilegri stofnun allt að kr. 110.000,- vegna dvalar á heilsustofnunum í stað kr. 70.000,-.
- Aðstandendur félagsmanna sem eru á vinnumarki og voru fullgildir við andlát skulu eiga rétt á útfararstyrk frá sjóðnum allt að kr. 445.000,-. í stað kr. 360.000,-.
- Við andlát félagsmanns, sem ekki er á vinnumarkaði en var félagi við starfslok eiga aðstandendur hans rétt á endurgreiðslu allt að kr. 130.000,- vegna útfararkostnaðar í stað kr. 110.000,-. Með starfslokum er átt við að sjóðfélagar láti af stöfum vegna aldurs eftir 60 ára aldur í stað 67 ára aldurs eða viðkomandi félagsmaður hafi látið af störfum vegna örorku.
- Endurgreiðslur vegna krabbameinsleitar svo sem í ristli og/eða blöðruhálsi verði að hámarki kr. 40.000,- í stað kr. 30.000,-.
- Endurgreiðslur til félagsmanna vegna heilsueflingar verði kr. 35.000,- í stað kr. 30.000,-.
- Félagsmaður sem fer í meðferð hjá sálfræðingi skal eiga rétt á 50% endurgreiðslu frá sjóðnum per skipti. Eldri regla hefur miðast við kr. 7.000,-. í endurgreiðslu per tíma.
- Félagsmaður sem fer í meðferð hjá fjölskylduráðgjafa skal eiga rétt á 50% endurgreiðslu frá sjóðnum per skipti. Eldri regla hefur miðast við kr. 7.000,-. í endurgreiðslu per tíma.
- Félagsmaður sem fer í meðferð hjá geðlækni/geðhjúkrunarfræðingi skal eiga rétt á 50% endurgreiðslu frá sjóðnum per skipti. Eldri regla hefur miðast við kr. 7.000,-. í endurgreiðslu per skipti.
Réttindi félagsmanna við starfslok:
Þingiðn og Framsýn hafa ákveðið að samræma reglur um réttindi félagsmanna sem hverfa af vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku. Reglurnar voru teknar til umræðu á fundinum og samþykktar samhljóða.
Réttindi við starfslok:
Félagsmenn Þingiðnar sem hætta á vinnumarkaði vegna aldurs, það er eftir 60 ára aldur eða vegna örorku haldi réttindum sínum í félaginu miðað við lög og reglugerðir sjóða á hverjum tíma enda hafi þeir verið greiðendur til félagsins við starfslok. Réttur þessi hefur fram að þessu miðaðist við 67 ára aldur en lagt er til að færa hann niður í 60 ára aldur. Forsendan er að viðkomandi félagsmaður hafi verið fullgildur félagsmaður í fimm ár fyrir starfslok á vinnumarkaði. Fimm samfelld ár teljast greidd þegar iðgjöldum hefur verið skilað fyrir a.m.k. 50 mánuði á fimm ára tímabili. Tekið er tillit til þess, hafi menn verið frá vinnu vegna eigin veikinda á tímabilinu umfram kjarasamningsbundinn veikindarétt.
Almenn þjónusta:
Félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði eigi áfram rétt á almennri þjónustu hjá félaginu sem fellur undir starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða út æviskeiðið.
Réttindi úr sjúkrasjóði:
Þrátt fyrir að almenna reglan sé sú að við starfslok missi menn réttindi úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða í síðasta lagi eftir 6 til 12 mánuði frá starfslokum haldi félagsmenn Þingiðnar fullum réttindum í 5 ár frá starfslokum. Þannig vill félagið gera betur en almennt þekkist meðal stéttarfélaga á Íslandi. Reyndar hefur þessi regla verið opnari hjá félaginu en verður nú miðuð við 5 ár frá starfslokum. Miðað er við að viðkomandi félagsmaður hafi verið greiðandi til félagsins að lágmarki í 5 ár fyrir starfslok, ef ekki helst rétturinn áfram í 12 mánuði frá starfslokum samkvæmt gildandi reglugerð sjúkrasjóðs félagsins. Ákveðnar reglur þurfa að gilda hvað varðar útgreiðslur úr sjóðnum þar sem greiðslur inn í sjóðinn koma frá atvinnurekendum í gegnum kjarasamninga. Félagsmenn greiða ekki sjálfir framlög í sjóðinn.
Útfararstyrkur:
Aðstandendur félagsmanna sem falla frá geta sótt um útfararstyrk hafi félagsmaðurinn verið greiðandi til félagsins síðustu fimm árin fyrir fráfall. Rétturinn tekur mið af starfsreglum sjóðsins á hverjum tíma og fylgir félagsmanninum út æviskeiðið sem hlutfall af fullum útfararstyrk.
Fyrning bótaréttar úr sjúkrasjóði:
Sé styrkja úr sjúkrasjóði ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að til kostnaðar var stofnað fyrnast greiðslur úr sjóðnum.
Námsstyrkir til eldri félagsmanna:
Eldri félagsmenn halda rétti sínum til námsstyrkja úr Starfsmenntasjóði Þingiðnar í allt að 24 mánuði frá því þeir hættu á vinnumarki.
Námsstyrkir vegna skertrar starfsorku:
Sá sem hverfa þarf tímabundið af vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila tryggingargjaldi af launum hans, heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði þeim rétti til starfsmenntunarstyrks úr starfsmenntasjóði félagsins sem hann hafði áunnið sér sbr. ákvæði kjarasamninga. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum, frá því hann hvarf af vinnumarkaði, fellur réttur hans að fullu niður.
Orlofshús og íbúðir:
Félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði halda réttindum sínum varðandi aðgengi að orlofshúsum og íbúðum á vegum félagsins til jafns við aðra félagsmenn sem eru á vinnumarkaði á hverjum tíma út æviskeiðið. Sama á við um tjaldstæðisstyrki.
Flug og aðrir orlofskostir:
Félagsmenn sem láta af störfum á vinnumarkaði hafa rétt til að kaupa sér flugmiða, Húsavík-Reykjavík, í gegnum félagið á sömu kjörum og fullgildir greiðandi félagsmenn á vinnumarkaði út æviskeiðið. Þá eiga þeir sömuleiðis rétt á sömu kjörum og fullgildir greiðandi félagsmenn hvað varðar aðra orlofskosti sem tilgreindir eru á orlofsvef félagsins á hverjum tíma. Það á einnig við um orlofsferðir sem félagið stendur fyrir og kaup á Veiðikortinu og Útilegukortinu á sérkjörum hjá félaginu. Þessi réttur gildir út æviskeiðið.
Lögfræðiaðstoð:
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eru með samning við Pacta lögmenn um þjónustu við félagsmenn á sérstökum kjörum. Þurfi félagsmenn á lögfræðiþjónustu að halda er þeim velkomið að leita til Pacta með sín mál. Þessi réttur gildir út æviskeiðið.