Ársreikningur Lsj. Stapa 2021 liggur fyrir

Stjórn Stapa lífeyrissjóðs hefur staðfest ársreikning sjóðsins fyrir árið 2021. Um síðustu áramót var hrein eign til greiðslu lífeyris um 358 milljarður króna og hækkaði um u.þ.b. 62 milljarða króna frá fyrra ári.

Ávöxtun eigna Stapa árið 2021 var ein sú besta í sögu sjóðsins í núverandi mynd eða sem nemur 13% raunávöxtun. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ár er um 7,6%.

Greiddir voru um 7,9 milljarðar króna í lífeyri úr tryggingadeild sjóðsins til um 11.588 lífeyrisþega. Voru þetta um 10,8% hærri greiðslur en árið á undan en á sama tíma fjölgaði lífeyrisþegum um 5,7%.

Alls greiddu tæplega 21.000 sjóðfélagar hjá rúmlega 3.500 launagreiðendum iðgjöld til tryggingadeildar á árinu en iðgjöld námu um 13,8 milljörðum króna og hækkuðu um 10,7% á milli ára. Fjöldi virkra sjóðfélaga sem greiddu iðgjöld í mánuði hverjum var um 15.000.

Hrein eign séreignardeildar var 8.420 milljónir króna og hækkaði um 16,9% frá fyrra ári. Séreignardeildin býður upp þrjú ávöxtunarsöfn, Innlána safnið, Varfærna safnið og Áræðna safnið og nam hrein raunávöxtun safnanna -4,8%, 9,4% og 13,3% á árinu. Hrein eign tilgreindrar séreignardeildar nam 472 milljónum króna í lok árs.

Hér má sjá ársreikninginn í heild sinni.

 

Deila á