Skýr skilaboð á formannafund SGS

Framsýn stóð fyrir góðum félagsfundi í kvöld um kjara- og íbúðamál og urðu hörku umræður um dagskrárliði fundarins. Undir liðnum um kjaramál urðu fjörugar umræður um stöðuna á vinnumarkaðinum og hvort ástæða væri til að segja gildandi kjarasamningum upp eða ekki. Þess má geta að formannafundir á vegum SGS og ASÍ hafa verið boðaðir í Reykjavík á morgun og fimmtudag. Þar verður tekin endanleg ákvörðun um hvað verður gert en samkvæmt forsendum kjarasamningana er heimilt að endurskoða þá í janúar 2012 og 2013.  Fundarmenn í kvöld töldu ljóst að samningsforsendur væru brostnar, sérstaklega er varðaði yfirlýsingar stjórnvalda með kjarasamningunum. Skilaboð fundarmanna voru skýr og var formanni Framsýnar falið að koma þeim á framfæri við  formannafund SGS á morgun. Hann og varaformaður félagsins verða fulltrúar félagsins á formannafundunum.

Á fundum í kvöld urðu einnig umræður um íbúðir félagsins í Reykjavík en félagið á í dag fjórar íbúðir, eina með Þingiðn. Samþykkt var að heimila stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins að selja núverandi íbúðir með það að markmiði að kaupa nýjar íbúðir í staðinn. Svohljóðandi tillaga var samþykkt samhljóða:

Tillaga
 „Félagsfundur í Framsýn stéttarfélagi, haldinn 17. janúar 2012 veitir stjórn og trúnaðarmannaráði félagsins fullt umboð til að selja núverandi íbúðir félagsins á Freyjugötu og í Asparfelli í staðinn fyrir nýjar íbúðir. 

Við það er miðað að félagið kaupi þrjár til fjórar íbúðir, allt eftir því, hvort Þingiðn- félag iðnaðarmanna tekur þátt í kaupunum eða ekki. Þessi tvö félög hafa verið í samstarfi um eignarhald og rekstur fasteigna á Freyjugötu 10a.“

Góðar og málefnalegar umræður urðu á félagsfundi Framsýnar í kvöld um kjara- og hugsanleg íbúðakaup félagsins í Reykjavík. Mæting á fundinn var ótrúlega góð.

Deila á