Á stjórnarfundi Framsýnar í gær var samþykkt að beina þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að þau opni fyrir aðgengi flóttamanna frá Úkraínu að íslenskum vinnumarkaði, það er með því að veita þeim atvinnuleyfi á Íslandi. Fyrir liggur að illa hefur gengið að manna fjölmörg störf svo ekki sé talað um störf í ferðaþjónustunni þar sem því er spáð að heimsóknir ferðamanna til Íslands verði yfir milljón nú þegar Covid er á undanhaldi. Ísland hefur því mikla þörf fyrir erlend vinnuafl. Framsýn hvetur til þess að flóttamenn frá Úkraínu hafi forgang til starfa á Íslandi á tímum ömurlegra aðstæðna í Úkraínu sem eru á ábyrgð Pútíns sem þegar hefur skráð sig í sögubækurnar sem einn mesti glæpamaður sögunnar.