Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar hefur ákveðið að leggja til við félagsfund sem haldinn verður næsta þriðjudag að íbúðir félagsins í Reykjavík verði seldar og nýjar keyptar í staðinn enda núverandi íbúðir allt of litlar. Félagið á fjórar íbúðir, reyndar eina með Þingiðn. Hugmyndin er að kaupa aðrar fjórar íbúðir í staðin í samstarfi við Þingiðn en stjórn þess félags hefur tekið vel í að vera með í verkefninu. Markmiðið er því að bjóða félagsmönnum upp á nýjar þriggja herbergja íbúðir með góðu aðgengi ekki síst fyrir fatlaða og þá sem fara suður vegna lækninga. Helst á notalegum stað. Núverandi íbúðir á Freyjugötunni eru með verulega slæmt aðgengi fyrir fatlaða félagsmenn. Eins og staðan er í dag, þá er verið að skoða með kaup á íbúðum í Kópavogi. Ein af þeim hugmyndum varðandi íbúðarkaupin sem er til skoðunar er í þessu fjölbýlishúsi sem er rétt við Smáralindina í Kópavogi. http://afhus.is/verk/thorrasalir1-3/ Verulegur verðmunur er á nýjum íbúðum í Reykjavík og í Kópavogi og þess vegna er horft til þess að fjárfesta í Kópavogi þar sem verðið er hagstæðara þar.