Stéttarfélögin hafa ákveðið að gera vel við félagsmenn sem sækja um orlofshús eða olofsíbúðir sumarið 2022. Sama leiguverð verður milli ára, það er kr. 29.000,- per viku. Tjaldstæðisstyrkir til félagsmanna sumarið 2022 verða kr. 25.000,- og þá verður ferðaávísun til félagsmanna hækkuð úr kr. 15.000,- í kr. 18.000,-. Ferðaávísunina geta félagsmenn notað til að niðurgreiða dvöl á hótelum og gistiheimilum sem finna má á orlofsvef stéttarfélaganna. Niðurgreiðslan/ferðaávísunin kemur til viðbótar þeim afslætti sem stéttarfélögin hafa þegar samið um við fjölmörg hótel, gistiheimili og aðra ferðaþjónustuaðila víða um land.
Eftir helgina verður hægt að sækja um orlofshús og íbúðir á vegum stéttarfélaganna sem eru Framsýn, Þingiðn, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Starfsmannafélag Húsavíkur.
Umsóknarfresturinn er til 18. apríl. Fljótlega upp úr því verður orlofskostunum úthlutað til félagsmanna sem sóttu um. Komi til þess að einhverjar vikur standi eftir, verða þær auglýstar aftur.
Stéttarfélögin hafa jafnframt ákveðið að standa fyrir sumarferð, það er gönguferð í Bárðardal um miðjan ágúst. Ferðin og orlofskostirnir verða auglýstir nánar í Fréttabréfi stéttarfélaganna sem kemur út síðar í mars. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna. Stéttarfélögin hvetja félagsmenn til að ferðast innanlands í sumar og njóta þess að vera til.