Miðstjórn Alþýðusamband Íslands krefst þess að fram fari rannsókn á meðferð opinberra fjármuna í tengslum við stuðningsúrræði til fyrirtækja vegna efnahagslegra áhrifa COVID- faraldursins. Framsýn tekur heilshugar undir samþykkt miðstjórnar ASÍ.
Þegar ríkishirslurnar voru opnaðar til að veita fyrirtækjum ríkisstuðning af óþekktri stærð fór Alþýðusambandið strax fram á að reist yrðu skilyrði við slíku. Meðal annars lagði ASÍ áherslu á að fyrirtækjum yrði gert skylt að nýta eigin bjargir áður en til stuðnings kæmi, að fyrirtæki undirgengjust skilyrði um að greiða ekki út arð næstu tvö árin eftir fyrirgreiðslu eða nýta aðrar leiðir til að taka fé úr fyrirtækjunum og að fyrirtæki eða eigendur þeirra væru ekki skráð í skattaskjól. Að auki krafðist ASÍ þess að laun æðstu stjórnenda fyrirtækja sem fengju aðstoð væru ekki óhófleg samanborið við laun almenns starfsfólks. Sem sagt, aðstoðin yrði neyðaraðstoð en ekki til þess að fyrirtækjaeigendur gætu makað krókinn. Einungis voru sett skilyrði fyrir stuðningi á grundvelli laga um hlutabótaleiðina en aðrir styrkir og stuðningur til fyrirtækja voru að mestu eða öllu leyti án skilyrða. Þetta veldur því að nú eru dæmi um fyrirtæki sem eru beinlínis að greiða út arð fyrir skattfé.
Ströng skilyrði eru sett við allri aðstoð sem einstaklingar njóta þegar í harðbakkann slær og á það jafnt við um atvinnuleysisbætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, almannatryggingar og önnur velferðarúrræði. En þegar kemur að fyrirtækjum er nálgunin önnur. Þótt enn sjái ekki fyrir endann á kreppunni, berast þegar fréttir af launahækkunum æðstu stjórnenda, bónuskerfum og gríðarlegri arðsemi fjármálafyrirtækja og ýmissa annarra fyrirtækja.
Á sama tíma og fyrirtæki tóku við ríkisstuðningi sætti launafólk víða kjaraskerðingum, en góðu heilli var staðið vörð um kjarasamningana. Talsmenn atvinnurekenda fóru engu að síður fram á skerðingar á réttindum launafólks og á launafólki dundi krafan um „að axla ábyrgð“ í erfiðu árferði. Þau sem greiða fyrir bónusana, arð bankanna og ofurlaun er þetta sama vinnandi fólk og er stöðugt sagt að axla ábyrgð á efnahagslífinu.
Það er eðlileg og réttmæt krafa að þessir þættir verði rannsakaðir, enda hefur óheyrilegum fjármunum verið veitt til stuðnings fyrirtækja. Sum þeirra voru sannarlega í brýnni þörf, en nú er að koma á daginn að önnur voru það ekki. Þá stendur upp á stjórnvöld að skýra hvers vegna skilyrði voru sett gagnvart sumum stuðningsúræðum, en öðrum ekki og hvers vegna háar girðingar eru reistar gagnvart einstaklingum í neyð, en ekki fyrirtækjum.