Fáni Framsýnar blaktir yfirleitt við hún úti fyrir höfuðstöðvum stéttarfélaganna á Húsavík. Undanfarnar vikur hafa verið nokkuð vindasamar á víkinni , en við þannig aðstæður fer fáninn illa, trosnar og lætur á sjá. Af virðingu við fánann, sem auðvitað er stolt félagsins var ákveðið að taka hann niður tímabundið, eða þar til að veðráttan yrði skaplegri. Eftir ábendingu frá vegfaranda var hins vegar ákveðið að flagga fánanum á ný. Færði viðkomandi góð rök fyrir máli sínu og sagði svo þægilegt að gera sér grein fyrir vindáttinni á hverjum tíma með því að fylgjast með fánanum. Samkvæmt þessu gegnir því félagsfáni Framsýnar veigamiklu hlutverki. Annars vegar sem táknmynd fyrir staðsetningu Skrifstofu stéttarfélaganna, en hins vegar sem leiðarvísir fyrir áhugafólk um veður, sem vill fylgjast með ríkjandi vindáttum á hverjum tíma. Þetta er bara skemmtilegt.
Eftir að fánanum var flaggað á ný sáust tveir dularfullir menn með myndavél við flaggstöngina. Síðar kom í ljós að um var að ræða blaðamenn Vikublaðsins. Ekki fara fregnir af því hvað þeir voru að gera.