Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Húsasmiðjan ákveðið að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík. Þess í stað verður opnuð söluskrifstofa í húsnæði Flytjanda á Húsavík en stéttarfélögin hafa beitt sér mjög í málinu. Höfðinginn, Jón Þormóðsson, verður áfram við störf hjá Húsasmiðjunni og mannar söluskrifstofu Húsasmiðjunnar. Opið verður alla virka daga fyrir hádegi frá og með næstu áramótum. Jóni er ætlað að sinna bæði fagaðilum og pöntunum einstaklinga, smáum sem stórum. Utan opnunartíma mun Jón sinna sölustörfum og þjónustu við fagaðila og fyrirtæki á svæðinu. Tryggt verður að pantanir verði afgreiddar hratt og vel. Verði reynslan af þessu fyrirkomulagi góð verður þjónustan endurmetin og opnunartíminn aukinn. Í samtölum við forsvarsmenn Húsasmiðjunnar hefur komið fram að þeir binda vonir við að heimamenn kunni vel að meta þessa viðleitni fyrirtækisins að halda uppi þjónustu á Húsavík þó hún verði í breyttri mynd. Sjá nánar auglýsingu frá Húsasmiðjunni verður í næsta Fréttabréfi stéttarfélaganna sem kemur út í lok næstu viku.