Barátta Framsýnar fyrir því að halda innviðum samfélagsins gangandi hefur vakið athygli fólks á félagssvæðinu sem lætur sig varða samfélagsmál. Málið var til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi félagsins í vikunni. Fram kom að félagið hefði fengið miklar þakkir fyrir að vekja athygli á málum eins og markaðsstöðu flugfélagsins Ernis, málefnum Húsasmiðjunar og starfsemi SSNE sem varð til við samruna Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Eyþings og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem því miður voru alvarleg mistök svo ekki sé meira sagt fyrir Þingeyinga. Í samtölum við íbúa á svæðinu hefur komið sterkt fram hvort ekki sé löngu tímabært að stofna sérstakt heimavarnarlið sem hefði það að markmiði að berjast fyrir stöðu íbúa á svæðinu. Vissulega er um að ræða mjög áhugaverða hugmynd sem full ástæða er til að skoða frekar.