Vilt þú komast á þing?

Eins og kunnugt er, eru alþingiskosningar framundan í haust. Fjölmargir hafa gefið kost á sér á þá lista sem bjóða fram til Alþingis, sem er vel.

Það er ekki bara að kjósa þurfi nýja alþingismenn heldur stendur Framsýn frammi fyrir því að kjósa þingfulltrúa á eftirtalin þing, það er starfandi félagsmenn á vinnumarkaði:

Þing Alþýðusambands Norðurlands sem haldið verður á Illugastöðum dagana 30. september og 1. október.

Þing ASÍ-UNG sem haldið verður í Reykjavík 24. september. Kjörgengir eru þeir sem eru innan við 35 ára aldur.

Þing Landssambands ísl, verslunarmanna sem haldið verður á Hótel Hallormsstað 14. – 15. október.

Þing Starfsgreinasambands Íslands sem haldið verður á Akureyri 20.-21.- og 22. október.

Í heildina þarf Framsýn að tilnefna 23 fulltrúa á þessi þing á vegum verkalýðshreyfingarinnar í haust. Félagsmenn Framsýnar sem verða fulltrúar á þinginu halda launum og fá ferða- og dvalarkostnað greiddan.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar mun ganga frá endanlegu kjöri á fulltrúum félagsins á þessi þing á fundi þann 17. ágúst. Hafi félagsmenn áhuga á því að gefa kost á sér á þingin eru þeir beðnir um að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is fyrir þann tíma. Með því að senda skilaboð á netfangið er einnig hægt að fá nánari upplýsingar.

Deila á