Á aðalfundi Framsýnar var samþykkt að félagsgjaldið verði óbreytt eins og verið hefur í nokkra áratugi eða 1% af launum félagsmanna. Þá var samþykkt að taka aftur upp lágmarksgjald. Til að öðlast full félagsréttindi þarf viðkomandi launamaður að greiða mánaðarlegt félagsgjald, nú 1% af heildarlaunum. Lágmarksfélagsgjaldið til að teljast félagsmaður tekur mið af byrjunarlaunum 18 ára afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta LÍV-SA sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma. Skal það vera 0,3% af þessum launaflokki. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði. Félagsmenn sem ekki hafa náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í Framsýn þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í sex mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.
Laun fyrir trúnaðarstörf
Fyrir nokkrum árum var tekinn upp sú regla að þeir sem gegna trúnaðarstörfum fyrir Framsýn fái greiðslur fyrir fundarsetu, það er í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum félagsins. Miðað er við tímakaup fiskvinnslufólks. Á aðalfundinum var samþykkt að viðhalda þessari reglu enda mikilvægt að almennir félagsmenn sem leggja á sig vinnu fyrir félagið fái smá umbun fyrir það.