Mig langar að kalla til fólkið á bak við tjöldin og fá að þakka þeim sérstaklega, svo mælti varaformaður Framsýnar í lok aðalfundar Framsýnar sem haldinn var á dögunum:
Góða fólk. Það hefur mikið mætt á ykkur undanfarin ár. Fyrst í öllu brjálæðinu í kringum uppbygginguna á Þeistareykjum og Bakka og svo í öldurótinu vegna heimsfaraldursins. Ég hugsa að ykkar starfslýsing sé nokkuð víðfeðm og þið þurfið oft að hugsa út fyrir rammann. Störf ykkar krefjast sífellt meiri sérfræðiþekkingar og sérhæfingar og ég held að það sé rétt sem sagt var í mín eyru á dögunum, að til þess að geta svarað í símann á skrifstofu stéttarfélags í dag, þurfi fólk helst að vera löglært. Við erum heppin með starfsfólk. Þið eruð burðarásinn í allri okkar starfi, látið hlutina ganga frá degi til dags og haldið utan um ótrúlega viðamikla starfsemi. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum á í dag. Þó að það sé ekki fært sérstaklega inn í ársskýrsluna, þá getum við lesið það á milli línanna að mesti auður félagsins að eiga ykkur að. Án ykkar værum við ekkert. Mig langar að færa ykkur örlítinn þakklætisvott frá stjórn Framsýnar, trúnaðarráði og Framsýn – ung til að þakka ykkur fyrir ykkar framlag að öflugu starfi félagsins. Mér fannst ekki við hæfi að mæra ykkur í drasl og gefa ykkur svo afskorin blóm sem þegar hafa hafið rotnunarferli. Því fáið þið lifandi plöntur sem sinnið örugglega af bestu samvisku, rétt eins og störfum ykkar hér. Að sjálfsögðu þökkuðu starfsmenn vel fyrir sig og hlý orð í þeirra garð.