Formanni Framsýnar var boðið í heimsókn til starfsmanna Eimskips á Húsavík í morgun en fyrirtækið rekur öfluga þjónustustarfsemi í flutningum fyrir atvinnulífið og einstaklinga á svæðinu. Auk þess að vera með skrifstofur og vöruskemmu á hafnarsvæðinu rekur fyrirtækið bílaverkstæði sem sér um viðhald á bílaflota fyrirtækisins er viðkemur starfsstöðinni en sex flutningabílar eru staðsettir á Húsavík auk sendibíla og lyftara. Þá þarf öflugan tækjakost fyrir hafnarstarfsemina. Á álagstímum sjá undirverktakar um ákveðna flutninga fyrir Eimskip þegar þess þarf með. Í heildina starfa um 20 starfsmenn í starfsstöðinni á Húsavík.
Starfsemi Eimskips á Húsavík skiptir verulega miklu máli enda umsvifin mikil í kringum fyrirtækið. Fyrirtækið hefur m.a. séð um að þjónusta PCC á Bakka sem er stór inn- og útflytjandi á íslenskan mælikvarða. Ekki var annað að heyra en að starfsmenn væru almennt mjög ánægðir með lífið og tilveruna enda mikið lagt upp úr góðum starfsanda. Áhugavert er að skoða starfsmannahaldið, þar má sjá að hluti stafsmanna hefur starfað hjá fyrirtækinu í áratugi sem segir mikið um vinnustaðinn. Eða eins og einn starfsmaðurinn orðaði það, þetta er „Flottasti vinnustaðurinn.“ Væntanlega verður hann enn þá flottari þegar búið verður að taka starfsmannaaðstöðuna í gegn en stefnt er að því að ráðast í breytingar á aðstöðunni á komandi vetri gangi áætlanir eftir.
Það var Vilhjálmur Sigmundsson svæðisstjóri Eimskips á Norðausturlandi sem leiddi formann Framsýnar um vinnustaðinn. Þess má til gaman geta að þeir störfuðu saman hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur á árum áður og þá var nú ýmislegt brallað. Formaður Framsýnar þakkar fyrir frábærar móttökur og góða kynningu á starfsemi Eimskips á Húsavík.