Það lætur ekki mikið yfir sér litla vinalega timburhúsið sem stendur við hliðina á Umhverfisstofnun og Kjörbúðinni í Reykjahlíð. Húsið hefur þó að geyma margt forvitnilegt og er sannarlega þess virði að staldra þar við til að sjá og skoða. Í húsinu rekur handverkshópur sem kallar sig Dyngjuna sameiginlega söluaðstöðu, en hópurinn er samsettur af Mývesku handverksfólki ásamt fleiri aðilum sem flestir hafa einhverja tengingu í sveitina. Tíðindamaður heimasíðunnar var á ferðinni í Mývatnssveitinni á dögunum og leit við í Dyngjunni. Þar voru fyrir hressar og kátar handverkskonur sem voru í óða önn að taka á móti og ganga frá vörum fyrir sumarið, en greinilegt var að meðlimir hópsins hafa nýtt tímann vel í vetur og verið duglegir að framleiða handverk af ýmsu tagi. Konurnar voru bjartsýnar á sumarið og létu alls ekki illa af síðasta sumri, þó að erlendir ferðamenn hafi verið fyrirferðarlitlir í sumartraffíkinni sökum heimsfaraldursins. Sérstaða Dyngjunnar er gott framboð á íslenskum lopapeysum og nú í upphafi vertíðar prýða stórir staflar af lopapeysum af öllum stærðum og gerðum hillur verslunarinnar og munu eflaust hlýja mörgum ferðamanninum í framtíðinni. En það er margt fleira sem er til sölu í Dyngjunni og vöruúrvalið reyndar afar margbreytilegt í þessu litla rými. Má þar nefna ullarvörur ýmis konar, trévörur, bútasaum, vörur úr horni og beini að ótöldum Mýveskum kræsingum eins og nýreyktum Mývatnssilungi og nýbökuðu Hverabrauði.
Aðalbjörg Gunnlaugsdóttir, Kolbrún Ívarsdóttir, Sólveig Pétursóttir og Bergþóra Eysteinsdóttir stóðu vaktina þegar tíðindamaður heimasíðunnar leit við á dögunum hjá handverkshópi sem kallar sig Dyngjuna.