Það var mikið gæfuspor þegar Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur 12. apríl 2012 í góðu samstarfi við heimamenn, enda hafa Þingeyingar aldrei efast um mikilvægi þess að búa við góðar samgöngur. Áður höfðu önnur flugfélög séð um áætlunarflug til Húsavíkur, með hléum. Þar á meðal var Flugfélag Íslands sem lagði af flug til Húsavíkur og beindi farþegum þess í stað í gegnum Akureyri, þyrftu þeir á flugsamgöngum að halda við Reykjavík. Eðlilega voru menn ekki ánægðir með þessa ákvörðun Flugfélags Íslands á sínum tíma enda um mikla þjónustuskerðingu að ræða fyrir flugfarþega um Húsavíkurflugvöll.
Allt frá fyrstu tíð hefur Framsýn, sem telur yfir 3.000 félagsmenn, fylgst með framvindu mála hvað flugið varðar milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ferðaþjónustuaðilar, einstaklingar, sveitarfélög, talsmenn fyrirtækja og þjónustuaðila hafa jafnframt talað fyrir mikilvægi flugsamgangna milli þessara landshluta, enda verið töluverður uppgangur á svæðinu.
Framsýn steig mikilvægt skref vorið 2014 með því að gera samkomulag við Flugfélagið Erni um magnkaup á flugmiðum fyrir félagsmenn til að tryggja þeim aðgengi að ódýrum flugfargjöldum. Frá þeim tíma hefur samningurinn verið uppfærður reglulega með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Í máli forsvarsmanna Ernis hefur komið skýrt fram að samningurinn við Framsýn skipti þá verulega miklu máli, það er, báðir aðilar hagnist á samstarfinu.
Í eðlilegu árferði hafa verið að seljast um 4000 flugmiðar til félagsmanna í gegnum Framsýn. Þegar best hefur látið hafa í heildina um 20.000 farþegar flogið um Húsavíkurflugvöll á ári, það er árið 2016 þegar 20.199 farþegar fóru um völlinn. Þess ber að geta að þá stóðu yfir miklar framkvæmdir á svæðinu við uppbygginguna á Bakka og á Þeistareykjum. Síðan þá hefur farþegum eðlilega fækkað, ekki síst á tímum Covid.
Ljóst er að heimamenn hafa miklar áhyggjur af stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur svo vitnað sé í yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum, ekki síst frá stéttarfélögum, ferðaþjónustuaðilum og sveitarfélögum s.s. Norðurþingi.
Svo virðist sem unnið sé að því að koma Flugfélaginu Erni útaf markaðinum með ýmsum brögðum sem Framsýn hefur þegar komið á framfæri við stjórnvöld og Samkeppniseftirlitið.
Allt stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi, þar sem vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir eigi ekki auðvelt með að mæta þeirri andstöðu sem flugfélagið býr við um þessar mundir. Það er þrátt fyrir farsæla sögu frá stofnun þess árið 1970 er viðkemur leiguflugi, áætlunarflugi og sjúkraflugi.
Nú er svo komið að nánast allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt með beinum eða óbeinum hætti nú þegar ákveðið hefur verið að samþætta rekstur Air Iceland Connect og Icelandair. Starfsemi flugfélaganna tveggja hefur verið sameinuð, svo sem flugrekstrarsvið, sölu- og markaðsmál. Sameinað félag er með eignarhlut í Norlandair sem hægt og bítandi hefur verið að ná flestum ríkisstyrktum áfangastöðum á landsbyggðinni.
Vitað er að stjórnvöld hafa verið með beina ríkisstyrki varðandi ákveðnar flugleiðir; Þórshöfn, Vopnafjörður, Grímsey, Gjögur, Bíldudalur, Höfn og Vestmannaeyjar auk þess að koma myndarlega að stuðningi við Icelandair með ríkisábyrgð upp á um 16 milljarða, sem er eftir samþættingu við dótturfélagið Air Iceland Connect með áætlunarferðir til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja.
Eftir því sem best verður séð, er eina áætlunarflugið sem ekki er ríkisstyrkt eða nýtur ríkisábyrgðar, flugleiðin Reykjavík-Húsavík með Flugfélaginu Erni sem skekkir verulega samkeppnisstöðuna.
Framsýn kallar eftir umræðu um áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur um leið og félagið hvetur stjórnvöld til að tryggja flugsamgöngur til Húsavíkur með sambærilegum hætti og gert er í dag til annarra áfangastaða á Íslandi. Að mati Framsýnar þarf að koma til stuðningur frá ríkinu svo hægt verði að tryggja flugsamgöngur til Húsavíkur á komandi árum.
Um er að ræða afar mikilvægt mál fyrir íbúa á svæðinu og þá sem velja að ferðast til og frá svæðinu svo ekki sé talað um atvinnulífið sem treystir á öruggt áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll. Framsýn mun ekki skorast undan og því halda áfram að styðja við flugið með samningum við Flugfélagið Erni um sérkjör fyrir félagsmenn með sambærilegum hætti og verið hefur. Að mati félagsins þarf meira að koma til svo hægt verði að tryggja flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur.
Hvað það varðar hefur Framsýn þegar fundað með forsætisráðherra auk þess að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart um í hvað stefni í innanlandsfluginu. Þingmönnum kjördæmisins hefur einnig verið gert viðvart og þá var fundað með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrr í dag um sama mál.
Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvörp er vörðuðu ríkisábyrgð til handa Icelandair kemur skýrt fram að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connekt myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni. Áhyggjur Samkeppniseftirlitsins eru þegar komnar fram nú þegar Icelandair og Air Iceland Connekt hafa sameinað krafta sína auk þess sem Norlandair er hluti af samsteypunni þar sem Flugfélag Íslands ehf. á eignarhlut í Norlandair svo vitnað sé í ársreikninga félagsins 2019. Flugfélagið Ernir á því miður ekki roð í þennan sameinaða risa sem drottnar nú nánast yfir öllu áætlunarflugi á Íslandi með ríkisstyrkjum og/eða ríkisábyrgð í boði stjórnvalda.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson og Hörður Guðmundsson framkvæmdastjóri Ernis funduðu með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir helgina í Stjórnarráðinu um áætlunarflug til Húsavíkur og samkeppni í innanlandsflugi á Íslandi.