Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefst framleiðsla á ný hjá PCC á Bakka með vorinu sem eru mikil gleðitíðindi enda PCC með stærri vinnustöðum á svæðinu svo ekki sé talað um hliðarstarfsemi sem tengist starfsemi fyrirtækisins á Bakka en mörg fyrirtæki á svæðinu hafa mikilla hagsmuni að því að starfsemin á Bakka gangi vel. Fyrir framleiðslustopp síðasta haust störfuðu um 150 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Eftir það fækkaði þeim verulega eða niður í um 50 starfsmenn. Fyrirtækið auglýsti nýlega eftir starfsmönnum í um 60 stöðugildi. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa þar sem yfir hundrað manns hafa haft samband við forsvarsmenn verksmiðjunnar í leit að vinnu hjá fyrirtækinu.
Miðað við þessa miklu ásókn verður ekki erfitt fyrir fyrirtækið að manna þær stöður sem til stendur að ráða í áður en verksmiðjan fer af stað aftur. Samhliða ráðningarferlinu er hafin nýliðafræðsla á vegum PCC en mikið er lagt upp úr því að fræða starfsmenn um starfsemina og helstu öryggisreglur sem gilda almennt á vinnustöðum. Þá hafa fulltrúar stéttarfélaganna verið beðnir um að kynna réttindi og skyldur starfsmanna á vinnumarkaði. Stéttarfélögin hafa samið við Þekkingarnet Þingeyinga um að sjá um þann hluta af námskeiðinu fyrir hönd stéttarfélaganna. Forsvarsmenn stéttarfélaganna og PCC á Bakka hafa átt gott samstarf um málefni starfsmanna er viðkemur aðbúnaði, öryggismálum og launakjörum enda vænlegast til árangurs fyrir báða aðila með hagsmuni starfsmanna og fyrirtækisins að leiðarljósi.