Einungis tvö sveitarfélög af 15 bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir atvinnulausa

Í nýrri úttekt Verðlagseftirlitsins er farið yfir þróun á leikskólagjöldum og gjöldum fyrir skóladagvistun. Sérstaklega er sjónum beint að forgangshópum, hverjir tilheyra þeim og afsláttum sem bjóðast þeim hópum. Með forgangshópum er átt við einstæða foreldra, námsmenn, öryrkja og atvinnulausa en misjafnt eru hverjir tilheyra þessum hópum hjá sveitarfélögunum og eiga rétt á afsláttum. Þá var skoðað hvernig gjöld breytast við það að börn fari úr leikskóla yfir í grunnskóla en þar sem mun færri sveitarfélög bjóða upp á afslætti af skóladagvistunargjöldum en leikskólagjöldum, hækkar kostnaður fyrir fólk sem tilheyrir forgangshópum í mörgum tilfellum töluvert þegar þau færast milli skólastiga.

Helstu niðurstöður:

  • Öll 15 sveitarfélögin bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir forgangshópa
  • Einungis 4 sveitarfélög af 15 bjóða upp á lægri gjöld fyrir skóladagvistun/frístund.
  • Kostnaður hækkar því töluvert í flestum sveitarfélögum hjá forgangshópum, einstæðum foreldrum, námsmönnum og öðrum sem tilheyra forgangshópum við það að barn færist milli skólastiga. Gjöldin hækka síður hjá þeim sem greiða almenn gjöld.
  • Mjög misjafnt er hverjir tilheyra forgangshópum hjá sveitarfélögunum. Þeir sem tilheyra forgangshópum og greiða lægri leikskólagjöld eru einstæðir foreldrar og námsmenn og er afsláttur af leikskólagjöldum í boði fyrir þessa hópa í öllum sveitarfélögunum.
  •  Einungis 2 sveitarfélög af þeim 15 sem verðlagseftirlitið gerði úttekt á leikskólagjöldum og gjöldum fyrir skóladagvistun bjóða upp á lægri leikskólagjöld fyrir atvinnulausa foreldra.
  • Einungis fjögur sveitarfélög bjóða upp á lægri skóladagvistunargjöld fyrir forgangshópa en það eru Kópavogsbær, Garðabær, Akraneskaupstaður og Seltjarnarnesbær. Gildir afslátturinn fyrir einstæða, öryrkja og námsmenn.
  • Ekkert sveitarfélag er með lægri gjöld skóladagvistunargjöld fyrir börn atvinnulausa.
  • Forgangshópar greiða því í flestum tilfellum sömu gjöld og aðrir þegar börnin eru komin í grunnskóla og hækka gjöldin því töluvert hjá forgangshópum þegar barnið fer úr leikskóla yfir í grunnskóla
  • Hafa verður í huga að það að afslættir bjóðist í einu sveitarfélagi en ekki öðru þarf það ekki að þýða að viðkomandi sveitarfélag sé með lægri gjöld. Í fréttinni sem linkur er á hér að neðan má finna gröf þar sem er hægt að sjá hversu há gjöldin eru miðað við í öðrum sveitarfélögum.

Fréttina í heild sinni má nálgast hér:

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/verdlagsfrettir/adeins-tvo-af-15-sveitarfelogum-bjoda-upp-a-laegri-leikskolagjold-fyrir-atvinnulausa/

Lægri leikskólagjöld og skóladagvistunargjöld fyrir forgangshópa ein leið til að hlífa börnum og barnafjölskyldum í kreppu 

Nauðsynlegt er að hlífa börnum fyrir afleiðingum kreppunnar en lægri gjöld fyrir leikskólagjöld og skóladagvistun er ein leið til að vinna að því markmiði. Samkvæmt rannsóknarskýrslu frá 2019 um lífskjör og fátækt barna á Íslandi á árunum 2004- 2016 versnuðu lífskjör barna meira en lífskjör almennings í kjölfar hrunsins og hlutfall barna sem bjuggu við fjárhagsþrengingar jókst meira hjá þeim börnum sem bjuggu á heimilum í viðkvæmri stöðu en hjá þeim sem gerðu það ekki. Börn á heimilum í viðkvæmri stöðu, svo sem börn einstærða foreldra, öryrkja og atvinnulausra eru einnig mun líklegri til að búa við fjárhagsþrengingar en önnur börn. Brýnt er að bæta kjör barna sem búa á heimilum í viðkvæmri stöðu en nærri fjögur af hverju 10 undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra og er staða barna öryrkja sambærileg stöðu einstæðra foreldra.

Deila á