Forsvarsmenn Norðurþings funduðu í gær með fulltrúum frá starfsmönnum Leikskólans Grænuvalla á Húsavík og stéttarfélaganna sem starfsmennirnir eiga aðild að, það er Framsýn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Félag leikskólakennara. Eins og fram hefur komið er mikil gremja og reiði meðal starfsmanna leikskólans enda nema boðaðar breytingar á kjörum starfsmanna verulegum fjárhæðum eða vel yfir einum mánaðarlaunum á ári. Fundarmenn skiptust á skoðunum um ákvörðun sveitarfélagsins og komu sínum skoðunum á framfæri. Ákveðið var að setjast frekar yfir málið á næstu dögum með það í huga að skoða hvort hægt verði að ná lendingu í málinu sem aðilar geti sætt sig við eða ekki. Það er von starfsmanna að viðunandi lausn finnist í málinu, ef ekki er skólastarfið í hættu.