Í gegnum tíðina hefur verið mikið aðhald í rekstri Framsýnar. Aðhaldið hefur ekki síst skilað sér í því að félagsmenn Framsýnar búa við góða þjónustu og gott aðgengi að sjóðum félagsins, það er sjúkrasjóði, orlofssjóði, vinnudeilusjóði og starfsmenntasjóðum á vegum félagsins. Fjárhagsleg afkoma félagsins á árinu 2019 var með ágætum þrátt fyrir verulegar hækkanir úr sjúkrasjóði til félagsmanna milli ára.
Rekstrarafgangur var á öllum sjóðum félagsins nema Fræðslusjóði. Þess ber að geta að Fræðslusjóður Framsýnar hefur ekki fastar tekjur en veitir félagsmönnum viðbótarstyrki til starfsmenntunar þegar rétti þeirra er lokið úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum s.s. Landsmennt, Ríkismennt, Sveitament, Sjómennt og Fræðslusjóði verslunarmanna. Félagsgjöld og iðgjöld lækkuðu um 0,13% milli rekstrarára.
Rekstrartekjur félagsins námu kr. 278.337.904,- sem er aukning um 1,76% milli ára. Rekstrargjöld námu 214.865.064,- sem er hækkun um 18% milli ára. Þessi hækkun er einkum tilkomin vegna hækkunar styrkja úr sjúkrasjóði. Fjármagnstekjur námu kr. 58.321.709,-. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 233.054.138,- á móti kr. 233.346.473,- á árinu 2018. Í árslok 2019 var tekjuafgangur félagsins kr. 114.939.909,-. Heildareignir félagsins námu kr. 2.146.256.344,- í árslok 2019. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 60.524.956,-. Önnur aðildarfélög greiddu kr. 6.170.050,- til rekstursins. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.