Á Húsavík er rekið öflugt starf hjá Félagi eldri borgara sem nær yfir Húsavík og nágrenni. Innan félagsins eru tæplega 300 manns. Starfsemi félagsins fer fram í Hlyn sem er þeirra félagsheimili. Aðastaðan er til mikillar fyrirmyndar og félaginu til mikils sóma. Stjórn félagsins óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar þar sem farið var yfir stöðu eldri borgara í þjóðfélaginu og aðild þeirra að stéttarfélögum og starfsemi þeirra. Fundurinn var vinsamlegur og skiptust menn á skoðunum um málefni fundarins. Góður vilji er til þess meðal Framsýnar og Félags eldri borgara á Húsavík að eiga gott samstarf um málefni eldri borgara. Hvað þetta varðar má geta þess að Framsýn leggur mikið upp úr því að félagsmenn, sem láta af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs, haldi áfram réttindum í félaginu þrátt fyrir að þeir hætti að greiða til félagsins. Þá hefur Framsýn einnig hvatt til þess að ASÍ taki upp náið samstarf við Landssamband Félags eldri borgara um þá þætti sem gætu bætt stöðu eldri borgara á Íslandi.