Allar mælingar í umhverfisvöktun hjá PCC BakkiSilicon hf. eru langt undir viðmiðunarmörkum. Þrjú minniháttar frávik frá starfsleyfi hafa komið upp. Sérfræðingur segir áhrif verksmiðjunnar á umhverfið óveruleg.
Húsvíkingar fjölmenntu á fund umhverfisstofnunar í gær. Þar voru kynntar niðurstöður eftirlits Umhverfisstofnunar og umhverfisvöktunar hjá PCC á Bakka fyrir árið 2018.
Eva Yngvadóttir, efnaverkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu, kynnti niðurstöður umhverfisvöktunarinnar. Í skýrslunni segir að niðurstöður mælinga á loftgæðum séu í öllum tilvikum undir umhverfismörkum sem gefin eru í reglugerð. Niðurstöður efnamælinga í ám og vötnum séu í öllum tilvikum undir skilgreindum umhverfismörkum, þar sem mjög lítil eða engin hætta sé á áhrifum á viðkvæmt lífríki. Þá sé ástand gróðurs almennt nokkuð gott.
Eva segir bakgrunnsmælingar hafa verið gerðar áður en starfsemi var hafin í verksmiðjunni og allar mælingar séu sambærilegar við það sem þá var. Það sé því hægt að segja að áhrif verksmiðjunnar á umhverfið í dag séu óveruleg.
Spurð að því hvort hún telji líkur á að það breytist þegar verksmiðjan verði komin í fullan rekstur telur hún svo ekki vera, mælingarnar séu svo langt undir viðmiðunarmörkum að mikið þurfi að breytast svo það gerist. Það verði þó spennandi að sjá tölur fyrir árið 2019 sem verði fyrsta heila starfsárið.
Einar Halldórsson, verkfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir þrjú frávik frá starfsleyfi hafa komið upp. Úrbótaáætlun hafi borist svo þau mál séu í farvegi. Hann segir frávikin hafa verið minniháttar, vegna aðgengis að svæðinu, olíuúrgangs sem var ekki á geymslusvæði og vegna kísilryks sem borist hafði út fyrir verksmiðjuna með vatni. Þessi frávik hafi ekki áhrif á starfsleyfi PCC og það hafi ekki komið til umræðu að endurskoða það. Þessi þrjú frávik og nokkrar ábendingar sem hafi komið fram í skýrslum séu einu athugasemdir umhverfisstofnunar við starfsemi PCC á Bakka.
Erfiðlega hefur gengið að koma verksmiðjunni í full afköst vegna endurtekinna bilana meðal annars á rykhreinsibúnaði. Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC, segir jafnan og þéttan stíganda vera í framleiðslunni núna og að framleiðslumet hafi verið sett í ágúst. Nú sé framleiðslan um 80 tonn á dag en planið sé að vera komin í full afköst og stöðugan rekstur um áramót. „Ég er mjög bjartsýnn að eðlisfari og veit að þetta mun hafast,“ segir Rúnar.
Fjárhagsstaðan er þröng og leitar félagið nú að allt fimm milljarða króna fjármögnun til að styrkja reksturinn. Rúnar segir það vera í ferli, hann sé viss um að fjármögnun náist en það muni skýrast á næstu vikum.
Nú hafa mörg áföll dunið yfir, hvernig líður forstjóranum?
„Mér liður vel, það eru endalausar áskoranir en ég sofna alveg á kvöldin,“ segir Rúnar að lokum. (ruv.is)
Á fundinum í gær var komið inn á mikilvægi PCC BakkiSilicon hf. fyrir samfélagið hér norðan heiða en um 150 manns vinna hjá fyrirtækinu. Forstjóri PCC gerði grein fyrir málinu og m.a. greiðslum fyrirtækisins til sveitarfélagsins Norðurþings og stéttarfélaganna á svæðinu. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, tók undir með forstjóranum og sagði PCC vera orðinn einn mikilvægasti vinnustaðurinn á svæðinu með teknu tilliti til skatta og umfangs á svæðinu. Starfsemin kallaði auk þess á mikla umferð um Húsavíkurhöfn með tilheyrnandi tekjum fyrir höfnina. Jafnframt hefði tekist að hækka laun starfsmanna PCC umtalsvert í síðustu kjarasamningum og áfram yrði haldið áfram á þeirri braut auk þess að efla starfsmenntun innan fyrirtækisins.