Þing Norræna verkalýðssambandsins (NFS) er haldið í Malmö dagana 3.–5. september undir yfirskriftinni „Byggjum brýr“. Þingið sækir forystufólk frá 15 heildarsamtökum launafólks frá öllum Norðurlöndunum. Fulltrúar fyrir 9 milljónir launamanna og verkalýðsfélaga sem hafa verið mikilvægasta aflið í að byggja upp velferðarsamfélög Norðurlandanna.
Við upphaf þingsins flutti forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, aðalræðu þingsins. Katrín byrjaði á að leggja áherslu á samstöðuna sem Norræna samfélagsmódelið byggir á; samfélag fyrir alla. Jafnframt benti hún á að það er enn verk að vinna við að byggja upp samfélag aukins jafnaðar og jafnréttis. Hún fjallaði því næst um íslenska kjarasamningakerfið og þann óstöðugleika sem hefur einkennt það. Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningunum síðasta vor miðaði að því að auka stöðugleika og taka jafnframt í samstarfi við verkalýðshreyfinguna á við þær áskoranir sem launafólk og íslenskt samfélag standa frammi fyrir. Í því sambandi benti Katrín á vilyrði um réttlátara skattkerfi, lengingu fæðingarorlofsins og hækkun barnabóta, húsnæðisstuðning við ungt fólk og tekjulága og baráttuna við brotastarfsemi á vinnumarkaði. Hún lagði áherslu á að efnahagslegum stöðugleika verði að fylgja félagslegur stöðugleiki sem tryggir launafólki bætt lífskjör.
Katrín fjallaði um stærstu áskorunina sem Norðurlöndin, Evrópa og allt mannkynið stendur frammi fyrir sem eru loftslagsbreytingarnar og loftslagsváin. Hún vísaði til aðgerðaráðætlunar íslensku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þá vísaði hún til samstöðunnar sem komið hafi fram á fundi norrænu forsætisráðherranna á Íslandi fyrir skömmu síðan. Katrín áréttaði að til að ná árangri gegn loftslagsvánni þarf samstöðu um átak á alþjóðavísu. Í því sambandi vísaði hún til vaxandi kröfu ungs fólks um raunverulagar aðgerðir og árangur strax. Katrín lagði áherslu á að Hagvöxtur er ekki markmið í sjálfu sér. Efnahagslegum vexti þarf að fylgja réttlát skipting gæðanna um leið og ekki er gengi á gæði náttúrunnar heldur verði endurheimt það sem fórnað hefur verið í þeim efnum.
Katrín ræddi um stöðu Norðurlandanna í Evrópu. Hún sagði Evrópusamvinnuna mikilvæga fyrir Norðurlöndin en á sama tíma er mikilvægt að vera gagnrýnin og taka ekki öllu sem kemur frá Evrópusambandinu sem gefnu og nefndi þjónustutilskipunina og aðför hennar að samfélagslegu velferðarkerfi.
Í lokin ræddi Katrín tækniþróunina, breytingarnar á vinnumarkaði og skipulagi vinnunnar og mikilvægi þess að takast á við þessar breytingar og nýta þær til góðs fyrir alla, en ekki bara suma. Til þess þarf samfélagslegar lausnir hvort heldur horft er til menntunar og endurmenntunar eða annarra aðgerða sem nauðsynlegar eru.
Katrín lauk máli sínu á því að árétta samhengi baráttunnar gegn loftslagsvánni, aðgerðum til að mæta tækniþróuninni og breytingum á vinnumarkaði jöfnuði og jafnrétti og velferð fyrir alla. Grundvöll Norræna samfélagsmódelsins.